132. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Minning Bergs Sigurbjörnssonar og Steinþórs Gestssonar.

[14:24]
Hlusta

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Tveir fyrrverandi alþingismenn hafa andast frá lokum þingfunda síðasta Alþingis. Bergur Sigurbjörnsson viðskiptafræðingur, síðast framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, andaðist 28. júlí, áttatíu og átta ára að aldri. Steinþór Gestsson, bóndi á Hæli í Gnúpverjahreppi, andaðist 4. september, níutíu og tveggja ára að aldri.

Bergur Sigurbjörnsson var fæddur í Heiðarhöfn á Langanesi 20. maí 1917. Foreldrar hans voru hjónin Sigurbjörn Ólason bóndi, lengst af í Staðarseli á Langanesi, og Guðný Soffía Hallsdóttir húsfreyja. Hann lauk námi í Héraðsskólanum á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1934, stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1939 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1943. Eftir það stundaði hann nám í hagfræði við Stokkhólmsháskóla árin 1946–1948. Með námi og að loknu viðskiptafræðiprófi stundaði hann skrifstofustörf í Landsbanka Íslands 1941 og í Olíuverslun Íslands 1942–1946. Árin 1948–1954 vann hann hagfræðistörf hjá fjárhagsráði. Hann stundaði hagfræðileg einkastörf 1956–1961, meðal annars í þágu Stéttarsambands bænda. Starfsmaður í Útvegsbankanum var hann 1961–1965, framkvæmdastjóri kjararannsóknarnefndar 1965–1968, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi 1968–1971 og aftur 1975–1982, sat þá á Egilsstöðum. Framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins í Reykjavík var hann 1972–1974.

Við alþingiskosningar 1953 var hann í kjöri í Reykjavík fyrir Þjóðvarnarflokk Íslands og hlaut sæti landskjörins þingmanns kjörtímabilið 1953–1956. Síðar hlaut hann sæti varaþingmanns í Reykjavíkurkjördæmi fyrir Alþýðubandalagið og tók sæti skamma stund á Alþingi vorið 1964 og aftur vorið 1965, sat á fimm þingum alls.

Bergur Sigurbjörnsson var skipaður í nefnd til að semja frumvarp um Framkvæmdastofnun ríkisins 1971 og kosinn í stjórn Viðlagasjóðs 1973. Hann var meðritstjóri Frjálsrar þjóðar, málgagns Þjóðvarnarflokksins, 1952–1954 og var síðan öðru hverju ritstjóri blaðsins til 1968.

Bergur Sigurbjörnsson var ungur að árum áhugasamur um stjórnmál. Hann valdist til forustu í samtökum ungra framsóknarmanna. Sumarið 1951 fór hann hins vegar í framboð utan flokka við aukakosningu alþingismanns í Mýrasýslu. Árið 1953 var hann einn af stofnendum nýs stjórnmálaflokks, Þjóðvarnarflokks Íslands, og kjörinn til setu á Alþingi. Hann var mikilvirkur í störfum flokksins, vel ritfær og reyndist ötull málsvari hans í ræðu og riti.

Bergur Sigurbjörnsson nam viðskiptafræði og hagfræði. Sú menntun nýttist honum vel til starfa hjá ýmsum stofnunum í fjóra áratugi. Síðast og lengst vann hann fyrir samtök sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Hann var félagslyndur, hugkvæmur og starfsamur, fullur áhuga á framförum í kjördæminu.

Steinþór Gestsson var fæddur á Hæli í Gnúpverjahreppi 31. maí 1913. Foreldrar hans voru hjónin Gestur Einarsson bóndi þar og Margrét Gísladóttir húsmóðir og bóndi eftir lát eiginmanns síns árið 1918. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1933 eftir eins vetrar nám í skólanum. Lauk þar skólaferli hans. Hann fór heim að Hæli til aðstoðar móður sinni við búskapinn. Bóndi á Hæli var hann síðan frá 1937–1974 og þar átti hann heima alla ævi. Þegar hann lét af búskap var hann orðinn alþingismaður fyrir nokkrum árum. Árið 1967 var hann í kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurlandskjördæmi, hlaut kosningu og sat á Alþingi á árunum 1967–1978 og 1979–1983. Hann tók þrisvar varamannssæti á Alþingi, á árunum 1964, 1978 og 1979, sat á 19 þingum alls. Hann var 2. varaforseti sameinaðs Alþingis 1980–1983.

Steinþór Gestsson átti frumkvæði skólaveturinn 1932–1933 að því að stofna söngkvartett skipaðan fjórum nemendum skólans, MA-kvartettinn, sem skemmti með söng í átta ár við miklar vinsældir. Heima í héraði hlóðust á hann ýmis störf, allmiklu fleiri en hér verða talin. Hann var í hreppsnefnd Gnúpverjahrepps 1938–1974, oddviti 1946–1974, og í sýslunefnd Árnessýslu 1946–1970 og 1974–1978. Formaður Landssambands hestamannafélaga var hann 1951–1963. Hann var í Þingvallanefnd 1970–1979 og 1980–1984 og formaður byggingarnefndar þjóðveldisbæjar 1974. Í stjórn Búnaðarfélags Íslands var hann 1979–1991 og í stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins 1981–1986, formaður stjórnarinnar frá 1983.

Á stuttum námsferli Steinþórs Gestssonar í skóla komu frábærar námsgáfur hans í ljós en hlutskipti hans var að verða bóndi á föðurleifð sinni og þar naut hann sín vel. Þar fékk hann ráðrúm fyrir fjölþætt áhugamál sín, meðal annars tónlist, leiklist og hestamennsku. Öllum þeim trúnaðarstörfum sem honum voru falin sinnti hann af trúmennsku, hógværð og samviskusemi. Á efri árum samdi hann rit og blaðagreinar, meðal annars um sunnlenskar byggðir, landssamtök hestamanna, MA-kvartettinn og ættir og athafnir Hælsbænda. Á Alþingi sem annars staðar ávann hann sér traust fyrir réttsýni og drenglyndi. Heima á Hæli stóð hann fyrir alkunnu rausnarbúi.

Ég bið háttvirtan þingheim að minnast Bergs Sigurbjörnssonar og Steinþórs Gestssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]