132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Aðgangur að gögnum einkavæðingarnefndar.

[15:39]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi taka fram að framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur leitað tilboða í sambandi við ráðgjöf í þessum málum. Síðan hefur verið unnið úr því hvað rétt væri að gera í því sambandi og fyrirtækið Morgan Stanley varð ofan á í þeim efnum. Mörg önnur alþjóðleg fyrirtæki og innlend fyrirtæki buðu jafnframt fram krafta sína við þá ráðgjöf.

Hv. þingmaður sagði að það hefði ekki að öllu verið farið að þessari ráðgjöf. Nú er það ekki þannig, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að þegar menn leita eftir ráðgjöf beri að fara að þeirri ráðgjöf í einu og öllu. Er hv. þingmaður að segja að um leið og menn hafa fengið alþjóðlegt fyrirtæki sem ráðgjafa í þeim málum séu menn búnir að binda sig við að fara í einu og öllu eftir því sem það leggur til? Það er eðlilegt að ráðgjöfin sé rædd í framkvæmdanefnd um einkavæðingu og farið yfir það. Hún er rædd við viðkomandi fyrirtæki og komist að niðurstöðu.

Að því er varðar upplýsingar til Alþingis þá finnst mér að sjálfsögðu að Alþingi eigi að hafa jafnmikinn aðgang að gögnum og upplýsingum og fjölmiðlar. Hér er farið eftir löggjöf sem Alþingi hefur sett um þessi mál. Komi upp deilur um þessi lög er sérstök nefnd sem fellir úrskurð í því sambandi. Ég veit ekki betur en meðlimir í framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafi mætt á fundi hjá þingnefndum til að gefa upplýsingar um þessi mál, hafi verið leitað eftir því.