132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:00]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður heldur því hér fram að við ættum að fara út í allar þessar framkvæmdir sem við ætlum að fara í vegna sölu Símans með því að stofna til frekari skulda og borga af þeim vexti. Það er það sem hann er að segja. Hann heldur því fram að það sé tryggt að þessi eign, Síminn, komi til með að vaxa að verðmæti í höndum ríkisins. Ég hef miklar efasemdir um það.

Hann heldur því fram að ekki sé samkeppnisrekstur hér á landi. Að minnsta kosti eitt annað öflugt fyrirtæki er starfandi á þessu sviði og mörg önnur fyrirtæki eru að byggja upp fjarskiptaþjónustu af ýmsu tagi. Síðan er alþjóðleg samkeppni á þessu sviði. Því skyldum við, eina þjóðin nánast í Vestur-Evrópu, standa í þeim sporum að ríkið haldi áfram þessum rekstri þrátt fyrir við séum á sameiginlegu markaðssvæði í Evrópu? Ég sé engin rök hníga til þess.

Það er alveg ljóst, hv. þingmaður, að ef við hefðum ekki farið út í þessa sölu gætum við ekki farið í þær framkvæmdir sem verið er að fara í. Það liggur alveg ljóst fyrir. Að halda öðru fram er í besta falli sjálfsblekking og hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því.