132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:27]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá góðu umræðu sem átt hefur sér stað í þingsal um þetta mikilvæga mál sem snertir okkur öll eins og kom svo glögglega fram í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz.

Það er af mörgu að taka. Ég rakti í fyrri ræðu minni þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu ríkisstjórnar og einstakra ráðuneyta og stofnana til að jafna launin í ríkiskerfinu. Mismununin er ekki síðri á hinum almenna markaði. Ég vonast til þess að gæðavottun jafnra launa muni þar vega þungt í þeirri baráttu í framtíðinni en ég vil, hæstv. forseti, nota tækifærið til að vekja athygli á því í þingsal að ég tel að við þessa umræðu hafi átt sér stað ákveðin tímamót í umræðunni um jafnréttismál. Við þessa umræðu tóku níu hv. þingmenn til máls, fjórar konur en fimm karlar. Ég fagna því alveg sérstaklega að við þessa umræðu hafi karlar látið mjög til sín taka. Það skiptir máli og ég hef sagt það, hæstv. forseti, að til þess að ná lengra fram á veg í jafnréttismálum þurfa karla að láta sig þessi mál varða. Til þess er fyrirhuguð ráðstefna í Salnum í Kópavogi 1. desember nk. sett upp. Ég skora á karla þessa lands og segi: Stígum um borð og gefum jafnréttismálunum það vægi sem þau eiga skilið.

(Forseti (SP): Forseti tekur undir með hæstv. félagsmálaráðherra að það er ánægjulegt að sjá það að kvennafrídagurinn hefur haft áhrif. 50 þús. konur hafa hátt.)