132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Umferð vélknúinna farartækja í ósnortinni náttúru.

241. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra greinargóð svör. Ég veit að hún ber sama ugg í brjósti og við hin sem höfum áhyggjur af auknum akstri utan vega í viðkvæmri náttúru landsins og fagna því hinni nýju reglugerð. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að almannaréttinn um frjálsa för, hvort heldur er á ám eða vötnum eða um náttúru Íslands, má ekki takmarka. En við verðum líka að gá að því að réttinn til öræfakyrrðar hlýtur líka að verða að virða, við sem reynum að njóta náttúrunnar höfum ólíkra hagsmuna að gæta. Ég held því að ekki sé fjarri lagi að hæstv. umhverfisráðherra gefi þessu örlítinn gaum, sérstaklega þegar svo er orðið að um að vötn landsins fara kannski fleiri, fleiri bátar á dag með mörg hundruð lítra bensíntanka. Við megum auðvitað ekki kalla yfir okkur óhöpp af því tagi sem maður sér fyrir sér að gætu mögulega átt sér stað við einhverjar aðstæður sem gætu skapast á vötnum þar sem þessir bátar fara um.

Hljóðvistarreglur og hávaðareglugerð eru hvort tveggja þættir eða tæki sem nota mætti til þess að reyna að vekja fólk til umhugsunar. Ef til vill er það bara slíkt, þegar öllu er á botninn hvolft, sem þarf að gera, þ.e. að vekja fólk til umhugsunar um að það er ekki sjálfsagt enda þótt við eigum ökutæki sem geta farið upp um fjöll og firnindi, vélsleða sem við getum ekið um á hjarni eða jöklum, að þenja þessi tæki og gefa í botn á öllum tímum sólarhringsins. Það verður kannski aðeins að skoða hvort slíkar hávaðareglur geti náð yfir akstur fólks í náttúru landsins.

Sjálf hef ég reynt að tilkynna til lögreglu um akstur bíla utan vega sem voru langt frá alþjóðaleið og enginn möguleiki fyrir lögreglu að komast til að sjá viðkomandi. Svo neita menn náttúrulega bara og þá er auðvitað ekki hægt að knýja fram neina dóma um nein mál. Ég þakka svörin.