132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Eingreiðsla til bótaþega.

[10:32]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það samkomulag sem hefur orðið á vinnumarkaði snertir þá sem eru á vinnumarkaði, það snertir ekki þá sem eru á bótum. Það er hins vegar þannig að ríkisstjórnin átti fund með Samtökum aldraðra í lok september og þar var ákveðið að flýta því að ganga frá skýrslu samráðsnefndar þriggja ráðuneyta um málefni eldri borgara. Sú skýrsla liggur nú fyrir. Næst á dagskrá er að halda fund með þeim til þess að fjalla um framhaldið, m.a. að því er varðar bætur. Þessi mál eru því í farvegi og verður fjallað um þau á þeim vettvangi og á sama hátt og gert hefur verið við sambærilegar aðstæður. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í þessum málum en um það verður fjallað á þeim vettvangi sem ég hef nú sagt frá.