132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Jafnréttisfræðsla fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana.

256. mál
[11:53]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Í gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum er fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta eitt af þeim sjö verkefnum sem eru á borðum allra ráðherra í ríkisstjórninni undir liðnum Verkefni allra ráðuneyta. Að auki er sérstakur liður í framkvæmdaáætluninni undir yfirskriftinni Fræðsla um jafnréttismál á ábyrgðasviði ríkisstjórnarinnar.

Nátengt fræðslu um jafnréttismál er jafnframt verkefnið Útgáfa jafnréttisgátlista til notkunar við stefnumótunarvinnu, en gátlisti er nytsamlegt tæki fyrir Alþingi, ráðuneyti, sveitarstjórnir og aðila á þeirra vegum til að tryggja að jafnréttissjónarmiða verði gætt við stefnumótunarvinnu. Að mínu mati er þetta grundvallaratriði þegar við ræðum fræðslu. Gátlisti til notkunar við stefnumótunarvinnu er á ábyrgð forsætisráðuneytis og Jafnréttisstofu og ég bind vonir við að slíkt tæki geti haft áhrif á stefnumótun hér á landi í framtíðinni.

Allir ráðherrar, hæstv. forseti, bera ábyrgð á henni og þá einnig gagnvart undirstofnunum sínum. Ég vil nota þetta tækifæri til að segja frá því sem gert hefur verið í ráðherratíð minni við að fræða og upplýsa stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta og stofnana og hvað áformað er að gera í náinni framtíð.

Ég hef sett jafnréttismál í forgang á þeim fundum sem eru reglulega skipulagðir á vegum ráðuneytis míns svo sem árlegum fundum með forstöðumönnum. Þannig ákvað ég að helga forstöðumannafundinn árið 2004 eingöngu jafnréttismálum. Þar gerði framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu og sérfræðingar stofunnar grein fyrir vinnu að jafnréttismálum og gerð jafnréttisáætlana. Á árlegum fundi með forstöðumönnum fyrir skömmu var hins vegar lögð áhersla á launajafnrétti kynjanna og fræðslu um mögulegar aðferðir við að vinna á kynbundnum launamun.

Þá hefur jafnréttisráð gengist fyrir ítarlegri fræðslu um gerð jafnréttisáætlana sem ég kom að og verð að segja að var sérstaklega fróðlegt og ánægjulegt og vel sótt.

Ég hef vissulega velt fyrir mér hvernig nálgast megi samráðherra mína og stjórnmálamenn almennt þegar jafnréttismálin eru annars vegar. Meðal annars hefur verið litið til fordæmis í Svíþjóð og hv. þingmaður minntist á, þar sem sænska ríkisstjórnin fræddist saman um jafnréttismál og eftir því var tekið víða um heim og ég finn það reyndar á kollegum mínum þar í landi að hafði veruleg áhrif. Ákveðnar áhugaverðar hugmyndir eru á mínu borði varðandi þetta sérstaklega sem ekki er tímabært að greina frá hér og nú, hæstv. forseti, en vonandi innan skamms.

Sjálfur sat ég námskeið sem haldið var um samþættingu jafnréttissjónarmiða og boðið var til æðstu stjórnendum í Stjórnarráðinu. Það námskeið var haldið að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins og sérstaklega óskað eftir því að ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar sæktu það. Það var hins vegar að mínu mati alls ekki nógu vel sótt og við höfum velt fyrir okkur hvort við eigum að gera aðra tilraun í þeim efnum.

En áfram með einstök verkefni sem hafa verið á mínu borði. Ég hef ásamt framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu ritað bréf til forsvarsmanna allra stjórnmálaflokka þar sem við hvetjum til þess að hlutur kvenna í sveitarstjórnum verði aukinn í sveitarstjórnum næsta vor. Jafnframt vekjum við athygli á því að ráðuneytið og Jafnréttisstofa vinna nú að gerð svokallaðrar jafnréttisvogar þar sem safnað verður upplýsingum um stöðu kynja í hverju sveitarfélagi landsins. Vogin verður m.a. nýtt til þess að hvetja konur til þátttöku í sveitarstjórnarmálum og vekja umræðu um þessi mál meðal stjórnmálaflokkanna.

Þá verður innan skamms hafist handa við fræðslu og verkefni til að hvetja konur til þátttöku í alþingiskosningunum vorið 2007. Meðal annars hefur verið rædd sú hugmynd að kalla saman starfshóp þar sem fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi eigi sæti og ræði um árangursríkar aðgerðir.

Margt fleira mætti nefna, hæstv. forseti, svo sem samþættingarverkefni til að kanna hvort þjónusta stofnana sem starfa á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins nýtist körlum og konum jafn vel og sé ekki kynbundin. Við höfum valið Vinnumálastofnun til að hefja þessa vinnu og ef vel tekst til munum við útvíkka þetta verkefni til annarra stofnana okkar.

Að lokum vil ég nefna að margir aðilar koma að fræðslu á vegum eða í samvinnu við félagsmálaráðuneytið. Þar nefni ég Jafnréttisstofu, jafnréttisráð og núna síðast rannsóknarsetur í vinnurétti og jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Þessir aðilar miðla m.a. þekkingu til annarra ráðuneyta og eftir atvikum pólitískt kjörinna fulltrúa og það er vel. Þá vil ég nefna sérstaklega mikilvægi jafnréttisfulltrúa sveitarfélaganna sem að mínu mati hafa svo sannarlega sannað gildi sitt á undanförnum árum og átt góða samvinnu við Jafnréttisstofu.

Ég gæti haldið áfram um stund við að greina frá ýmsum áhugaverðum verkefnum sem við erum að ræða, hæstv. forseti, en læt þetta nægja að sinni.