132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Sönnunarbyrði samkvæmt jafnréttislögum.

280. mál
[15:30]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi Mörður Árnason hefur lagt fyrir mig þrjár spurningar sem ég mun í upphafi svara með almennum orðum og loks nánar hverri spurningu fyrir sig.

Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda þá á fyrirspurn þessi sér m.a. rætur að rekja til athugasemda sem komu fram á málþingi sem haldið var nýverið af Jafnréttisráði um launajafnrétti. Þar kom m.a. fram í fróðlegum fyrirlestri dansks fræðimanns, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, það álit þessa fræðimanns að tiltekin ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla væri ekki í fullu samræmi við Evrópurétt á sviði jafnréttismála. Ég sat sjálfur að stærstum hluta þetta málþing sem var að mínu mati afar fróðlegt og upplýsandi og vel sótt. Í kjölfarið ræddu fjölmiðlar við mig og í viðtali sem birtist um kvöldið sagði ég að við mundum að sjálfsögðu fara yfir þessar ábendingar og skoða hvort ástæða væri til að gera breytingar á gildandi lögum.

Ég stend við þau orð mín enda er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fara yfir jafnréttislögin í heild sinni. Hluti af þeirri vinnu yrðu þá þær ágætu ábendingar sem fram komu á málþingi Jafnréttisráðs því eins og máltækið segir, glöggt er gests augað. Þessari vinnu hyggst ég ýta úr vör á næstu vikum.

Þrátt fyrir að gagnrýni hafi komið fram gagnvart einstökum lagaákvæðum verðum við að sjálfsögðu, hæstv. forseti, að fara yfir athugasemdirnar og lögin í heild sinni til að meta hvort gagnrýnin eigi að öllu leyti rétt á sér. Ég legg áherslu á að við skoðum þessi atriði með opnum huga en rökstuðningur fyrir breytingum þarf að mínu mati að vera greinargóður og skýr eins og ávallt.

Fyrsta spurning hv. þingmanns lýtur að því hvort sá sem hér stendur telji heppilegt að sönnunarbyrði kæranda samkvæmt jafnréttislögum sé erfiðari á Íslandi en samkvæmt Evrópuréttinum. Það er einfalt í mínum huga. Sé það svo er það að sjálfsögðu óheppilegt svo að ekki sé meira sagt. Ljóst er að íslenskri löggjöf er ætlað að vera í fullu samræmi við gerðir Evrópusambandsins að þessu leyti.

Líkt og þingheimi er fullkunnugt um fela gerðir þær sem felldar hafa verið undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið yfirleitt í sér lágmarksréttindi. Þannig er aðildarríkjum heimilt að setja á löggjöf sem kveður á um aukin réttindi borgaranna en lögin mega ekki fela í sér minni rétt en fram kemur í tilskipunum. Við höfum dómafordæmi hér á landi þar sem vægari kröfur hafa verið gerðar um sönnun í jafnréttismálum en almennt tíðkast. Hvort gengið sé nægilega langt í þeim efnum þarf að sjálfsögðu að skoða. Það er alveg ljóst að það er hvorki vilji minn né þeirra sérfræðinga er starfa á þessu sviði innan stjórnsýslunnar að íslensk löggjöf sé lakari að þessu leyti en þær sem tíðkast annars staðar innan Evrópska efnahagssvæðisins og það sem meira er, mér finnst það einfaldlega óásættanlegt.

Varðandi aðra spurningu hv. þingmanns um hvort sá sem hér talar telji ástæðu til að endurskoða orðalag jafnréttislaga um jafnverðmæt og sambærileg störf í 14. gr. laganna þá vil ég ítreka það sem áður hefur komið fram í máli mínu um almenna endurskoðun laganna. Það er mitt mat að þetta atriði eigi þar heima.

Í þriðju spurningu spyr hv. þingmaður hvort sá sem hér stendur telji heppilegt að samanburður starfa eftir kynjum geti einungis átt við um störf í sama fyrirtæki. Því er til að svara, hæstv. forseti, að dómstólar bæði hér á landi og á vettvangi Evrópusambandsins hafa fyrst og fremst fjallað um mál sem varða samanburð á störfum innan sama fyrirtækis. Evrópudómstóllinn hefur opnað fyrir þann möguleika að samanburður geti einnig átt sér stað í víðara samhengi enda þótt það liggi ekki alveg ljóst fyrir hvaða skilyrði dómstóllinn setji í þessu sambandi. Þetta er flókið viðfangsefni og í þessu samhengi er rétt að upplýsa að í frumvarpi til gildandi jafnréttislaga frá árinu 2000 var tekið sérstaklega fram að átt væri við samanburð milli starfa hjá sama atvinnurekanda til skýringa. Þetta er atriði sem þarf að skoða í ljósi breyttra viðhorfa, eins og hv. þingmaður m.a. rakti, viðhorfa sem kunna að hafa þróast frá setningu gildandi laga. Ég tel einsýnt að þetta verði meðal þeirra atriða sem fjallað verði um þegar farið verður yfir jafnréttislögin í heild sinni.

Hæstv. forseti. Það er enginn vafi í mínum huga að jafnréttismálin eru í stöðugri þróun sem betur fer. Ég tel því afar brýnt að við fylgjumst með þeirri þróun bæði hér á landi og erlendis og bregðumst við þeim breytingum sem verða á þessu sviði.

Ég hef ítrekað sagt að mér hefur fundist skorta rannsóknir á því hvaða tæki eru að færa okkur áfram á þróunarbrautinni og hvaða tæki séu hins vegar gagnslítil. Ég tel að á Íslandi eigum við í auknum mæli að nýta okkur rannsóknir við stefnumótun og ég bind vonir við að nýr jafnréttissjóður sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma á fót muni geta styrkt mikilvægar rannsóknir m.a. á sviði löggjafar þegar kynbundinn launamunur er annars vegar.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að taka jafnréttismálin til umræðu og jafnframt þakka Jafnréttisráði fyrir hið vandaða málþing sem hv. þingmaður vitnaði til um launajafnrétti, málþing sem hefur vissulega vakið okkur til umhugsunar um gildandi lagaákvæði.