132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:28]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú ástæða til þess að taka af allan vafa um það að hér er ekki um að ræða gjald sem kemur með nokkrum hætti niður á launþegum heldur eru það atvinnurekendur sem greiða þetta gjald. Það kemur hvorki launum einstaklinganna við né heldur persónuafslættinum. Þarna er um að ræða gjald sem atvinnurekendur safna saman í þennan sjóð til þess að standa undir því þegar áföll verða og gjaldþrot eiga sér stað.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki megi allt eins sjá fyrir sér að atvinnurekendur kaupi sér sérstaka tryggingu. Ég vil nú líta svo á, hæstv. forseti, að það sé nákvæmlega það sem þeir eru að gera með þessum sjóði, þ.e. þar safna atvinnurekendur saman í einn sjóð peningum sem svo aftur eru nýttir til þess að taka áföllin af þeim þegar gjaldþrotin verða. Þarna er því um að ræða verkfæri sem við Íslendingar höfum nýtt okkur með margvíslegum hætti, þ.e. samfélagsleg ábyrgð og í þessu tilfelli samábyrgð fyrirtækjanna.