132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:40]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Mér er ljúft að koma inn á það mál sem hv. þm. Helgi Hjörvar spurði hér um. Þegar ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að leggja til við Alþingi að 8 milljörðum kr. yrði varið til Sundabrautar á tilteknum árafjölda ræddi ég m.a. við borgarstjórann í Reykjavík um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar og gerði henni grein fyrir því að hér væri miðað við tillögu Vegagerðarinnar eins og hún lá fyrir á þeim tíma, sem gerði ráð fyrir svokallaðri innri leið. Í framhaldi af því lýsti borgarstjórn Reykjavíkur frekar en borgarráð, ég held að ég fari rétt með það, yfir ánægju sinni með þá ákvörðun, enda hafði það lengi verið baráttumál Reykvíkinga og borgarstjórnar Reykjavíkur að verja fjármagni til þeirrar framkvæmdar.

Ég held að í sjálfu sér hafi ekkert annað verið að gera, enda stendur í greinargerð með frumvarpinu að þessi fjárhæð taki mið af innri leið. Af hverju öðru ætti að taka mið en tillögu Vegagerðarinnar? Það er að sjálfsögðu ekki hægt. Það kemur hins vegar fram í greinargerðinni að gert sé ráð fyrir því að þessi framkvæmd geti kostað á bilinu 7,5 milljarða til 14,5 milljarða eftir því hvaða leið er farin.

Það stendur hvergi í frumvarpinu að þessi leið sé skilyrt. Það kemur hvergi fram í frumvarpinu. Ákveðnir aðilar hafa hins vegar kosið að túlka það svo, af hverju veit ég ekki, að það sé skilyrt í frumvarpinu að þessi leið verði nánast farin óbreytt. (Gripið fram í.) Það kemur ekki fram. Nú fara fram athuganir á því hvort ekki sé nauðsynlegt að gera einhverjar lagfæringar á þessari tillögu. Það er eðlilegt að sú umræða fari fram. Það eru athugasemdir frá íbúum í Grafarvogi út af því að fara þá leið sem farin er í gegnum Hamarinn og margir telja nauðsynlegt að fara jafnvel fram hjá honum. Mér finnst eðlilegt að það sé skoðað. Það eru líka athugasemdir um að umferð sé í of miklum mæli beint inn á Skeiðarvoginn. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að fara í gegnum það. Ég segi fyrir mitt leyti að ég sé enga ástæðu til að beina umferðinni sem kemur eftir Sundabrautinni almennt inn á Skeiðarvoginn. Aðaláherslan hlýtur að vera að beina umferðinni inn á Sæbrautina og inn á Reykjanesbrautina en alls ekki inn í íbúahverfi. Mér finnst eðlilegt og nauðsynlegt að þessi umræða fari fram þó að ég vænti þess að það verði ekki til þess að seinka framkvæmdinni.

Nú liggur fyrir að ýmsar aðrar leiðir hafa verið athugaðar í þessu sambandi. Þær athuganir hafa staðið lengi yfir og það er margt sem kemur til greina í þeim efnum. Það má líka vel vera að borgarstjórn Reykjavíkur vilji að þarna verði farið í kostnaðarsamari framkvæmdir sem komi borginni vel og þá er það atriði sem þarf að ræða milli ríkis og borgar. Ég átti nýlega fund með hafnarstjórn hinnar nýju Faxaflóahafnar. Þar kom skýrt fram að þessi framkvæmd skiptir höfnina mjög miklu máli, eykur arðsemi hennar mikið og er mjög mikilvæg fyrir það nýja samstarf sem hefur tekist á þessu svæði um hafnarmál. Það er mikilvægt að menn skapi vettvang til að ræða þessi mál saman og ég lýsti því þar yfir að ég væri tilbúinn að beita mér fyrir því að við fyndum þann vettvang milli borgaryfirvalda og ríkisins að fara betur yfir þessi mál áður en endanlegar ákvarðanir yrðu teknar.

Auðvitað verðum við að gæta þess að velja sem hagkvæmasta leið í þessu sambandi þannig að það kosti skattborgarana sem minnst, þó þannig að íbúar verði ekki fyrir ónauðsynlegu ónæði þar af. Ég býst hins vegar við því, virðulegur forseti, að það sé í sjálfu sér sama hvaða leið verður farin að því leytinu til að að reisa þarf mikil mannvirki í sambandi við þennan mikilvæga veg. Það verður alltaf eitthvert ónæði af öllum slíkum mannvirkjum og það er ekki vilji margra að hafa slík stór mannvirki allt of nálægt íbúðum sínum og húsakynnum. Það er eðlilegt en það er ekki í fyrsta skipti sem farið er yfir slík mál á höfuðborgarsvæðinu frekar en annars staðar í landinu.

Síðan hef ég lagt áherslu á það, og ríkisstjórnin öll, að mikilvægt sé í sambandi við þessa mannvirkjagerð að menn sjái fyrir endann á því að Sundabraut verði lokið, það sé ekki nægilegt að hún sé lögð upp í Grafarvog, í íbúahverfið þar, heldur þurfum við að sjá fyrir endann á þessari framkvæmd alla leið upp á Kjalarnes. Það kemur fram í þessu frumvarpi að gert sé ráð fyrir því að þar verði um einkaframkvæmd að ræða. Nú hafa margir látið sér vaxa í augum að þetta eigi að vera einkaframkvæmd og reikna með því að það þýði gífurlega aukningu í skattheimtu. Nú liggur fyrir að áætlað er að framhald Sundabrautar kosti um 8 milljarða. Þar að auki liggur fyrir að það er nauðsynlegt að tvöfalda Hvalfjarðargöngin innan ekki allt of langs tíma og bæta þar um. Það sem stendur eftir af skuldum vegna Hvalfjarðarganganna eru einhvers staðar á bilinu 4–4,5 milljarðar. Ef við leggjum allar þessar tölur saman, þ.e. Sundabrautina frá Grafarvogshverfinu og upp á Kjalarnes, tvöföldun Hvalfjarðarganga og þær skuldir sem þar standa eftir, er fjárhæðin u.þ.b. 15 milljarðar. Þá fjárhæð er hægt að endurgreiða með sömu gjaldtöku og er í Hvalfjarðargöngunum í dag á u.þ.b. 30 árum. Það er því vel hægt að standa undir þessum framkvæmdum með sömu gjaldtöku og er í dag með 30 ára endurgreiðslutíma.

Það má líka hugsa sér að umferðin verði jafnvel meiri. Ef hún eykst um svo sem eins og 500 bíla á dag er hægt að greiða þetta niður á 25 árum. Þá er hægt að endurgreiða þessar framkvæmdir með lægri gjaldtöku á lengri tíma. Þar að auki þarf að taka til athugunar hvort menn nota í einhverjum mæli svokallað skuggagjald þar sem gert er ráð fyrir að ríkið greiði fyrir afnot af slíku mannvirki. Þetta er allt til athugunar. Hvort innheimtan á sér stað með veggjaldi á einum stað eða tveimur læt ég liggja á milli hluta. Það er atriði sem þarf að skoða nánar. En það er alveg ljóst að hægt er að fara í allar þessar framkvæmdir og ljúka þeim á þeim tíma sem kemur fram í frumvarpinu með hóflegri gjaldtöku. Þar sem hér er um mjög mikið hagsmunamál að ræða, bæði fyrir íbúa höfuðborgarinnar og íbúa alls Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands, vænti ég þess að þær tímasetningar sem koma fram í frumvarpinu geti staðist og menn láti það ekki hindra þessa mikilvægu framkvæmd þó að einhverjar umræður séu um það hvar Sundabrautin eigi nákvæmlega að liggja og hvernig veggjald skuli innheimt. Ég tel að þetta sé svo stórt mál að það ætti að geta verið mjög góð pólitísk samstaða um það og ég vænti þess að hún geti tekist. Ég tel mikilvægt að góð samstaða sé um málið milli ríkisvaldsins og borgaryfirvalda í Reykjavík og ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að svo geti orðið í þessu máli miðað við þau samtöl sem farið hafa fram og ég hef átt, bæði við íbúa sem ég hef talað við og einnig við fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Ég vænti þess að þessar hugleiðingar mínar svari fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvars.