132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[11:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég tel að aðalatriði þessa máls sé hvaða markmið við höfum til framtíðar í sambandi við kjör öryrkja. Ég er sammála fulltrúum öryrkja um að það er mjög mikilvægt að auka atvinnuþátttöku þeirra. Atvinnuþátttaka eldri borgara hér á landi er með því mesta sem gerist, hún er 40% meiri en t.d. í Danmörku. Ef atvinnuþátttaka eldri borgara í Danmörku væri svipuð og hér á Íslandi mundu þjóðartekjur Dana hækka álíka mikið og heildarþjóðartekjur Íslendinga.

Það er hins vegar rétt að atvinnuþátttaka öryrkja hér á landi er of lítil og þess vegna er mjög mikilvægt að auka starfsþjálfun og endurhæfingu. Það er einmitt það sem ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um. Það starf mun fara af stað.

Síðan hafa fulltrúar öryrkja líka lagt á það áherslu að minnka skerðingu vegna atvinnuþátttöku öryrkja og við í ríkisstjórninni teljum mjög eðlilegt að fara yfir það mál. Við skulum þó líka muna að þegar við tölum um að draga úr þessum svokölluðu skerðingum erum við jafnframt að tala um að draga úr tekjujöfnun. Það skulu menn líka hafa í huga. Kröfur eldri borgara ganga út á það að draga úr þessum skerðingum og ríkisstjórnin tekur undir það að fara yfir þau mál. Ég tel því að þessi mál séu í eðlilegum farvegi og við munum vinna að þeim en við þurfum enga fimm ára áætlun til þess samkvæmt tillögu Stefáns Ólafssonar.