132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:00]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Gert var ráð fyrir því að ríkið yrði eitt eigandi Landsvirkjunar í dag. Svo hefði orðið ef þær fyrirætlanir hefðu gengið upp sem stofnað var til fyrir alllöngu síðan, þegar fulltrúar Reykjavíkurborgar fóru þess á leit við ríkið að það keypti hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Reyndar var Akureyrarbær samstiga í því máli.

Það vill svo til að einhverra hluta vegna hefur flokkur hv. þingmanns, Vinstri grænir, alfarið lagst gegn því að ríkið keypti eignarhlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Þó bað Reykjavíkurborg um það og borgarstjóri fór þess á leit við ríkisstjórnina að ganga til slíkra viðræðna, m.a. í umboði Vinstri grænna. En þegar til átti að taka vildi flokkurinn ekki standa við upprunalega samþykkt sína og beiðni. Það fæ ég með engu móti skilið en vera má að hv. þingmaður viti eitthvað um það. Það er náttúrlega með eindæmum að ekki sé hægt að treysta því þegar gengið er til slíkra samninga að einhver alvara búi þar að baki.

Við höfum viljað leysa þetta málefni. Þess vegna var staðið við það sem upphaflega var stofnað til. Það er gert með þessu frumvarpi. Með því er staðið við orð og undirskriftir þeirra manna sem að því stóðu. Yrði það ekki gert kæmi upp ný staða en þetta er sagt í því ljósi að við höfðum gert ráð fyrir því að ríkið væri núna orðið eini eigandi Landsvirkjunar.