132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

56. mál
[18:16]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara þakka þessa umræðu og sérstaklega vil ég þakka hv. formanni umhverfisnefndar Alþingis fyrir þau orð sem hann lét hér falla. Því ég tel að þar með sé umhverfisnefnd Alþingis svo gott sem sameinuð á bak við þessa tillögu. En umfjöllun um hana fer auðvitað fram í samgöngunefnd Alþingis. Svo ég treysti því að umhverfisnefndin standi saman og hnippi hraustlega í samgöngunefnd til að málið fái jákvæða afgreiðslu þar og góða framgöngu.

Ég tel afar mikilvægt að hafa þau meðmæli sem hér hafa fengist frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, í þeim efnum. Ég vil taka undir með honum, það er nauðsynlegt fyrir okkur alþingismenn að nota þær leiðir sem við höfum til að hjólreiðar verði raunhæfur valkostur í samgöngumálum. Við höfum orðið vitni að því að hér í Reykjavík er verið að bæta við umferðarmannvirkjum á hverju einasta ári sem ekki eru til þess fallin að hleypa hjólreiðafólki um. Nú átti í skipulagskösinni hér niðri í Vatnsmýri, þar sem Hringbrautin hefur verið sett niður af því hún var flutt, þá átti að leysa mál hjólreiðamanna með glæsibrag. Og hvernig var það gert? Með því að byggja stórar og miklar brýr yfir göturnar. Þær eru þannig hannaðar að maður þarf að hjóla um það bil einn kílómetra í vitlausa átt áður en maður kemur inn á brúna sem leiðir mann yfir götuna. Svo fer maður annan kílómetra í vitlausa átt þegar maður fer út af brúnni. Þannig að við Reykvíkingar stöndum hér og störum á þetta fyrirbæri í Vatnsmýrinni sem á að vera til að leysa vandræði hjólreiðafólks á þessum stóru og erfiðu gatnamótum. En þá er það gert á þann hátt að það virðist ekki vera skilningur á því að hjólreiðafólk þarf líka að komast á skömmum tíma frá einum stað til annars. En ekki að vera hjóla eilífar rósir og krúsidúllur. Ég held að við eigum langt í land með að skilja þarfir hjólreiðafólks og að viðurkenna hvað það er sem þarf í umferðarmannvirkin svo hjólin eigi þar greiðan aðgang og til hægt sé að nýta hjólin sem samgöngutæki.

Ég get talað fyrir því hér af því ég hef reynt það, ég bý reyndar ekki langt frá miðbænum, en ég nota hjólið sem samgöngutæki. Ég hjóla hér stærstan hluta ársins til og frá vinnu. Það er ekki bara heilsubót að því í líkamlegum skilningi eins og getið var um í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þór Þórðarsonar, heldur er það ekki síður andlega upplífgandi að hjóla, anda að sér fersku lofti, vera í sambandi við fólkið sem maður mætir á götunni, hitta aðra hjólandi vegfarendur sem ævinlega eru brosandi á hjólum sínum, þannig að þetta hefur verulega jákvæð áhrif. Ég held að við eigum að sameinast í svona átaki, efla bæði geðheilsu okkar og líkamlega heilsu með því að fjölmenna á hjólin og sjá til að umferðarmannvirki okkar séu þannig hönnuð að hjólin eigi greiða leið um samgöngukerfið.

Að þessari umræðu lokinni, hæstv. forseti, óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar til umfjöllunar.