132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þjónusta svæðisútvarps.

487. mál
[13:18]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hv. þingmaður hefur lagt fyrir mig fyrirspurn á þskj. 718, um þjónustu svæðisútvarps, og er fyrirspurnin í þremur liðum eins og hv. þingmaður kom inn á.

„1. Hve hátt hlutfall af fréttaefni svæðisstöðva Ríkisútvarpsins er frá svæðum utan byggðarlagsins þar sem viðkomandi stöð er (Egilsstaða, Akureyrar, Selfoss, Ísafjarðar), sundurliðað eftir stöðvum og eftir hljóðvarpi og sjónvarpi?

2. Hve mikið af því efni er unnið af fréttariturum hljóðvarps annars vegar og sjónvarps hins vegar?

3. Hve háu hlutfalli af fréttaefni svæðisstöðvanna er útvarpað á landsrás Ríkisútvarpsins?“

Ég leitaði eftir upplýsingum frá Ríkisútvarpinu og í svari þess kemur fram að fréttir sem Ríkisútvarpið flytur, hvort heldur er í sjónvarpi eða útvarpi, í svæðisútvarpi eða á landsrás, eru ekki flokkaðar með þeim hætti að unnt sé að svara fyrirspurninni. Á svæðisstöðvum Ríkisútvarpsins á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum eru fastráðnir fréttamenn sem vinna fyrir útvarpið, sjónvarpið og viðkomandi svæðisstöð og því er ógerlegt að gera greinarmun á milli fréttaritara hljóðvarps annars vegar og sjónvarps hins vegar.

Á Selfossi vinna tveir menn við fréttaöflun fyrir Ríkisútvarpið, annar fyrir Fréttastofu sjónvarps og hinn fyrir útvarpið en af framansögðu leiðir að það er ekki hægt að gera grein fyrir hvernig framlög þeirra skiptast.

Hvað síðasta lið fyrirspurnarinnar varðar verð ég enn og aftur að vísa til þess að slíkar athuganir hafa ekki verið gerðar af hálfu Ríkisútvarpsins. Það krefðist gríðarlegrar vinnu að fara nákvæmlega í gegnum allar fréttir til að finna slíkt út auk þess sem það væri alltaf túlkunaratriði því frétt um tiltekinn atburð eða málefni er að jafnaði sérstaklega unnin fyrir hvern miðil.

Niðurstaðan er því í stuttu máli sú að því miður, frú forseti, reyndist ekki gerlegt að verða við ósk hv. fyrirspyrjanda og veita svör við spurningum hans því að upplýsingar af því tagi sem óskað var eftir liggja ekki fyrir hjá Ríkisútvarpinu.