132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Skotveiði og friðland í Guðlaugstungum.

446. mál
[14:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það kemur fram í lögum um náttúruvernd að hafa eigi samráð við hagsmunaaðila og ég er á því að það hefði farið miklu betur á því þegar verið var að koma þessu skotveiðibanni á að haft hefði verið samráð við skotveiðimenn. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að endurskoða þetta bann, sérstaklega ef svo reynist að veiðar beinist þá frekar í þær tegundir sem eiga undir högg að sækja, svo sem blesgæs, sem hæstv. ráðherra minntist á að væri í einhverri lægð, og grágæs líka. Ég er á því þegar menn hafa farið fram með slíkt og ekki rætt við alla hagsmunaaðila, eins og kom fram í máli ráðherrans, að þá eigi að fara yfir þetta bann og skoða hvort í raun og veru sé þörf á því, hvort við ættum ekki að halda áfram að nýta heiðargæsina til veiða á þessu svæði. Ef full rök eru fyrir því að stofninn hafi aldrei verið stærri eigum við þá ekki að halda áfram að nýta hann til veiða? Það er skoðun mín. Fróðlegt væri að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort ekki sé ráð að leggjast yfir þetta mál og endurskoða hvort í rauninni hafi verið þörf á þessu banni.