132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Útreikningur bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins.

[16:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og er sammála málshefjanda, hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að forðast ber að flækja kerfið enn frekar, að sjálfsögðu ber að forðast það. Hins vegar er eðlilegt að slíkt kerfi sé nokkuð flókið. Það ríkir samstaða um það. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem tók einmitt undir það að ekki er samasemmerki á milli flókins kerfis og óréttlætis. Það er ekki þannig að þótt kerfi verði flóknara þeim mun óréttlátara verði það, alls ekki. Við erum að reyna að koma til móts við þá sem þurfa á því að halda og þá hljóta að koma til reglur sem fela í sér að kerfið verður flókið. Það er bara þannig. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að draga það mjög skýrt fram í sínu máli því það var mikið sannleikskorn í því sem hann sagði hér.

Varðandi Tryggingastofnun ríkisins þá hefur verið komið til móts við óskir stofnunarinnar um meiri stuðning vegna lífeyristryggingasviðsins. Á árinu 2003 voru veittar 10 milljónir til að mæta útgjaldaaukningu í starfsmannahaldi hjá stofnuninni, 20,3 milljónir voru veittar í rekstrargrunninn og einnig á fjáraukalögum 2005. Það er því búið að styrkja Tryggingastofnun en þetta er samt ekki nóg. Ég er nýbúin að heimsækja stofnunina og geri mér grein fyrir að það þarf að styrkja hana enn frekar og við munum vinna að því.

Ég vil líka draga fram að það er mjög mikilvægt að Tryggingastofnun sé í góðu samstarfi við notendahópa sína, þ.e. ellilífeyrisþega og öryrkja. Ég tel að það samstarf sé ágætt en það þarf sjálfsagt að efla það enn frekar.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að tekjutengingarnar, sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni, eru grimmar, þær bíta mjög snemma. Nefnd Ásmundar Stefánssonar er að skoða þær. Ásmundur er mjög lipur, fljótur að setja (Forseti hringir.) sig inn í mál og ég hef mikla trú á því (Forseti hringir.) að það komi góðar tillögur frá nefndinni. Þar sitja líka eldri borgarar við borðið þannig að ég bind miklar vonir við það starf.