132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Upplýsingalög.

690. mál
[14:16]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Fyrst að því er varðar spurningu hv. síðasta ræðumanns, Marðar Árnasonar, vil ég endurtaka það sem ég sagði í framsögu minni og vitna beint í það. Ég sagði eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Vakin er athygli á því að sérlög og reglugerðir um verkefni ákveðinna stofnana veita nú rýmri heimildir til gjaldtöku fyrir upplýsingar úr opinberum skrám en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Má þar nefna Fasteignamat ríkisins, Landmælingar Íslands og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.“

Þetta frumvarp haggar ekki þeim lagaákvæðum, en síðan segir, sem er mikilvægt:

„Það er því í verkahring viðkomandi ráðuneytis að fara yfir þau ákvæði og leggja til nauðsynlegar breytingar sem samræmast anda þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í þessu frumvarpi.“

Sú stefnumörkun er skýr, eins og hv. þingmaður tók fram. Þá vil ég svara því sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi, þ.e. að talað er um að það sem innheimt er standi undir þeim kostnaði sem viðkomandi stofnun verður fyrir. Eins og hv. þm. Mörður Árnason sagði er stefna frumvarpsins að gera þessar upplýsingar sem aðgengilegastar og stuðla að því að þær verði nýttar.

Nú man ég það rétt að þegar hæstv. umhverfisráðherra kom með frumvarp sitt til ríkisstjórnar um breytingu á lögum er varða Landmælingar Íslands þá lá fyrir að sú ágæta stofnun mundi missa tekjur við þá breytingu. Þá er komið að því sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson spurði um: Hvernig verður því tekjutapi mætt?

Svarið er einfalt: Því tekjutapi verður að mæta á fjárlögum. Það liggur fyrir að þegar nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar á lögum sem varða einstakar stofnanir mun framlag til nokkurra stofnana þurfa að hækka nokkuð til þess að andi þess frumvarps sem hér er flutt fái notið sín.

Að því er varðar spurningu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar um sérleyfissamninga er mér ekki kunnugt um slíka samninga og get því miður ekki svarað því en vænti þess að hv. þingmaður fái skýr svör um það í meðferð nefndarinnar. Hið sama á við um það sem fjárlagaskrifstofan segir um að ekki sé nægilega skýrt hvaða stofnanir falli hér undir. Ég vænti þess að þær leiðbeiningar sem hér eru séu alveg nægilega skýrar en það liggur fyrir að viðkomandi ráðuneyti þurfa að koma með frumvörp til laga um breytingar til þess að andi þessara laga komist að öllu leyti til framkvæmda. Málið verður ekki endanlega skýrt fyrr en viðkomandi ráðuneyti hafa farið endanlega í gegnum það.