132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Út af orðum hv. þingmanna vil ég benda á að fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga þar sem gert er ráð fyrir að farið verði yfir öll þessi mál og þau rannsökuð af utanaðkomandi aðilum og skýrslu síðan skilað til Alþingis eigi síðar en í árslok 2006. Er nú ekki nauðsynlegt vegna þessa máls sem liggur í fortíðinni að gefa sér nokkurn tíma í að komast að hinu sanna í málinu og upplýsa allt sem það varðar? Í framhaldi af því getur Alþingi að sjálfsögðu tekið sínar ákvarðanir.

Ég ætla ekkert að fullyrða um það hver hafi verið að hlera og í hvaða tilgangi né að verja það á nokkurn hátt. En ég tel hins vegar nauðsynlegt að menn viti hið sanna í málinu og gefi sér tíma til þess. Hér er um að ræða valinkunna, óháða utanaðkomandi aðila sem eiga að skila um það skýrslu til Alþingis og það er fyrst þá og í framhaldi af því sem hægt er að taka ákvörðun um það hvernig verður farið í málið. Ég vænti þess að hv. alþingismenn geti sameinast um það.