133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

fötluð grunnskólabörn.

103. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra svörin. Það er hverju orði sannara sem hæstv. ráðherra segir að það er ófært að óljósar upplýsingar um kostnað eða hver eigi að standa að þessari þjónustu, standi í vegi fyrir því að þessi þjónusta sé veitt. Fötluð börn og foreldrar þeirra hafa beðið ansi lengi. Það er ansi langt nefndarstarf að það taki eitt og hálft ár að komast að niðurstöðu um það hvernig eigi að taka á málinu.

Hæstv. ráðherra upplýsir að lausn sé í sjónmáli og það innan skamms. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þetta samkomulag. Má ekki líta svo á, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hafi hér verið að lýsa því yfir að samkomulag sé í höfn milli ríkis og sveitarfélaga? Ég spyr um það. Hefur samkomulag náðst bæði varðandi kostnaðarhliðina og varðandi það hvernig staðið skuli að lagabreytingu þannig fyrir liggi hvort ríki eða sveitarfélög eigi í framtíðinni að standa undir þessu eða hvort ríki og sveitarfélög eigi að gera það sameiginlega? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við eigum von á frumvarpi inn í þingið til að tryggja réttinn með lögum þannig að það liggi alveg fyrir að ekki verði eilífar deilur um þetta frá ári til árs, þ.e. að þetta mál verði leyst til frambúðar og fatlaðir og foreldrar þeirra geti gengið að því vísu að þeir fái þessa sjálfsögðu þjónustu. Ég spyr: Hvenær fæst þessi niðurstaða? Þurfum við að bíða eftir að frumvarp verði lagt inn í þingið eða verður viðunandi lausn fyrir þessa aðila fundin strax? Ef ég skil málið rétt þá fá ekki fötluð börn núna á aldrinum frá 10–16 ára neina þjónustu. (Forseti hringir.) Þess vegna bið ég hæstv. ráðherra um skýrari svör við spurningum mínum.