133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kröfur tryggingafélaga um upplýsingar.

172. mál
[18:15]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Þegar við settum ný lög um vátryggingarsamninga 2004, var þetta atriði mjög umdeilt, bæði í umsögnum og innan nefndarinnar. En ákveðin lending náðist og nú erum við komin með reynslu á þetta atriði og vil ég lýsa því sem minni skoðun að mér finnst vera ástæða til að endurskoða það. Mér er líkt og hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur nokkuð misboðið hversu langt tryggingafyrirtækin ganga í því að afla upplýsinga.

Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan, sem eru mjög veigamikil rök, hvort hafa eigi þrengri skorður hér en erlendis. Það mundi leiða til hærri iðgjalda tryggingafyrirtækja sem leiðir auðvitað til hærri iðgjalda fyrir okkur. En hins vegar heyrir maður á fólki að því misbýður hversu langt tryggingafyrirtækin ganga og ég tel það ekki vera af hinu góða.