133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:37]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það er eðlilegt að formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, vefjist tunga um tönn þegar hún á að lýsa afstöðu flokksins til varnarmála. Jón Baldvin Hannibalsson er önnum kafinn nú í þverpólitískri nefnd við að leysa það hvernig Samfylkingin hyggist snúa sér í þessum málum. Ég hef stundum haft orð á því að ef maður rifjar upp þær skoðanir sem Jón Baldvin Hannibalsson hefur haft á varnarmálum og vestrænni samvinnu og þær skoðanir sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur haft á þeim málum sé niðurstaðan þverpólitísk. Það má kannski velta fyrir sér að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé nú að reyna að rifja upp hvar hún stendur á þessu augnabliki.

Mér þótti athyglisvert að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skyldi halda þeim vana sínum að brigsla öðrum um að þeir vilji ekki virða mannréttindi, gefa í skyn að hér í þessum þingsal séu einstaklingar sem ekki vilji virða mannréttindi. Það þarf náttúrlega mikið þrek til að brigsla öðrum mönnum um slíkt, mikinn siðferðilegan þroska, en því miður gat þingmaðurinn ekki fært rök að þessu, sem ekki er von, vegna þess að fyrir þessu er enginn stafur, orð út í bláinn.

Í annan stað talaði hv. þingmaður um að ríkisstjórnin vildi ekki vera ábyrg í umhverfismálum á alþjóðavettvangi, sem er auðvitað mikill misskilningur ef við rekjum söguna. Að því vék hæstv. utanríkisráðherra m.a. í ræðu sinni þar sem hún gerði sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins sérstaklega að umtalsefni, sem er einn af hornsteinum utanríkisstefnu okkar Íslendinga. Ég sé enn fremur ástæðu til að rifja upp þær áherslur sem við Íslendingar höfum lagt varðandi norrænt samstarf, um þróun í átt að sjálfbæru samfélagi á norðurslóðum og vestnorrænum svæðum. Sú áætlun sem við lögðum sérstaka áherslu á þegar við fórum með formennskuna í norrænu ráðherranefndinni er þessi: Það er sjálfbær nýting auðlinda hafsins, sjálfbær þróun í landbúnaði og verndun landgæða, sjálfbær þróun í samfélögum á norðurslóðum og vestnorrænum svæðum, verndun náttúrunnar og líffræðilegrar fjölbreytni á norðurslóðum og atvinnuþróun á Vestur-Norðurlöndum og norðurslóðum.

Við Íslendingar höfum beitt okkur sérstaklega í þessum efnum, hér er ekki tími til að fara inn í einstök atriði. Þessi mál komu m.a. upp á fundum í Vestnorden á þessu sumri og raunar oftar. Við höfum lagt áherslu á það, fulltrúar þeirra landa sem þar eiga fulltrúa, að ástæða sé til að beita sér sérstaklega í þeim efnum. Jafnframt höfum við Íslendingar að sjálfsögðu verið ábyrg varðandi þá miklu möguleika sem við höfum á því að framleiða hér sjálfbæra orku, nýta vatnsaflið og orkulindirnar sem er skylda okkar og auðvitað dregur úr útblæstri á koldíoxíði og öðru slíku eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á.

Ég vil enn fremur, frú forseti, vekja athygli á því að eins og nú er komið er ekki aðalatriðið að við rifjum upp hvaða ástæður réðu því að ráðist var inn í Írak. Við erum að tala um mannöryggi. Það fólk sem þar var smæst undir stjórn Saddams Husseins bjó ekki við mannöryggi frekar en í dag og auðvitað út í hött að halda því fram að við Íslendingar berum siðferðilega ábyrgð á þeim hryðjuverkum sem þar eru unnin. Við eigum þvert á móti að einbeita okkur að því að koma til liðs við alla þá sem þar vilja stilla til friðar og auka öryggi íbúanna.

Ég átti þess kost að sitja á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og á morgunfundum fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um hálfs mánaðar skeið í haust. Það var auðvitað mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig málum vatt fram á þessum tíma og greinilegt að á sumum sviðum, jafnvel þeim sem varða helgustu mannréttindi og öryggi þjóða, eru Sameinuðu þjóðirnar í sjálfheldu. Þetta kristallaðist í síendurteknum atkvæðagreiðslum um það hvort Venesúela eða Gvatemala skyldu taka sæti í öryggisráðinu á næstu tveim árum sem annað þeirra ríkja sem í það skyldu kjörin frá Suður- og Mið-Ameríku og var áskilið að ríkið þyrfti aukinn meiri hluta, þ.e. tvo þriðju atkvæða, til að ná kjöri. Atkvæðagreiðslurnar voru orðnar 47 þegar ég hvarf af fundinum. Þær eru allar leynilegar og illa með tímann farið. Síðan náðist samkomulag um að Panama skyldi taka sætið. Þetta þrátefli sýnir í hnotskurn þann ágreining og tortryggni sem uppi er í alþjóðasamfélaginu og sem veldur því hversu erfitt Sameinuðu þjóðirnar eiga með að standa undir þeim vonum sem við þær voru bundnar við stofnun þeirra, að þjóðirnar næðu saman um ráðstafanir til að tryggja öllu mannkyni frið og velsæld.

Nú eru 60 ár síðan við Íslendingar fengum aðild að Sameinuðu þjóðunum. Fyrstu 20 árin vorum við fámennasta þjóðin í þeim samtökum en síðan hefur þetta breyst og ég ætla að nokkru fleiri en 20 ríki séu nú fámennari en við. Mjög fast er nú unnið að því að vinna fylgi við framboð okkar í öryggisráðið eins og sést á því að við Íslendingar höfum nú tekið upp stjórnmálasamband við nær öll ríki Sameinuðu þjóðanna og vantar einungis 11 eða 12 þjóðir til að loka hringnum.

Til viðbótar vil ég nefna þátt okkar í friðargæslu víða, eins og hæstv. utanríkisráðherra gerði grein fyrir, og aukin framlög til þróunarmála. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að sækjast eftir sæti í öryggisráðinu og raunar skylda okkar sem þjóðar að gera það og standa undir þeirri miklu ábyrgð sem því fylgir gagnvart öðrum þjóðum. Það skerpir sjálfsímynd okkar sem þjóðar og er til þess fallið að við skilgreinum betur fyrir okkur stöðu okkar meðal þjóðanna.

Það voru okkur vissulega mikil vonbrigði að Bandaríkin skyldu kalla varnarliðið heim með þeim hætti sem þau gerðu. Það skýrist af falli Sovétríkjanna og þeirri breyttu heimsmynd sem það framkallaði. Fyrir fram hefðu menn búist við að þvílíkir atburðir yllu því sjálfkrafa að friðvænlegra yrði í heiminum en það er síður en svo. Önnur vá, verri viðfangs, hefur komið í staðinn, sveitir hermdarverkamanna, sjálfsvígsárásir og skipuleg glæpasamtök hafa látið til sín taka, eða eins og segir í ævintýrunum að þegar hausinn var höggvinn af tröllkarlinum uxu tveir samstundis þar sem einn var áður.

Við Íslendingar höfum, guði sé lof, ekki ástæðu til að ætla að við verðum fyrir árásum eða ágangi af því tagi sem ég hef hér lýst ef við höldum vöku okkar því að auðvitað er það frumskylda hvers ríkis að tryggja öryggi þegna sinna. Þess vegna var okkur mikilsvert að Bandaríkin skyldu lýsa því yfir að þau stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum eins og segir í samkomulagi ríkjanna frá því í haust. Þess vegna hljótum við líka að efla löggæslu og almannavarnir, m.a. í samvinnu við nálægar þjóðir. Það er að sjálfsögðu algjörlega út í hött sem fram kom í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að í þessum samningi sé eitthvert huldumál sem ekki sé eðlilegt að fari leynt. Þessi samningur er í fyllsta máta eðlilegur og eins að honum staðið og gert er um slíka hluti í nálægum löndum og lýsir þeirri alvöru sem ríki standa frammi fyrir þegar þau hugsa um hvernig hægt sé að tryggja öryggi þegna sinna. Þessi breytta staða veldur því að við Íslendingar verðum að vera virkari í alþjóðlegu samstarfi en áður á þeim vettvangi er varðar öryggismál eins og ÖSE, Atlantshafsbandalagið og Sameinuðu þjóðirnar.

Okkur verður tíðrætt um alþjóðasamfélagið og þær skyldur sem þróun alþjóðamála og viðskipta leggur okkur á herðar. Samskipti þjóðanna eru orðin flóknari og taka á fleiri þáttum en áður sem óhjákvæmilega hefur haft áhrif á þjóðþingin og störf þeirra. Í ljósi þessa tel ég tímabært að endurmeta frá grunni hvernig alþjóðastarf Alþingis er byggt upp, hver sé staða forseta Alþingis í því ljósi, utanríkisnefndar og annarra nefnda sem starfa á alþjóðavettvangi og raunar einnig annarra nefnda Alþingis vegna mála sem upp kunna að koma og varða viðskipti eða samstarf við aðrar þjóðir. Í þessum efnum höfum við Íslendingar verið um of íhaldssamir og er nú kominn tími til að við tökum okkur á. Það er af þessum sökum sem við í utanríkismálanefnd höfum beint því til fjárlaganefndar að ástæða sé til að auka fjárveitingar til alþjóðastarfsemi.

Ég vil geta þess að öll utanríkismálanefnd mun nú í desembermánuði heimsækja Eystrasaltsríkin þrjú. Við ætlum til þess sex daga og leggjum mikið upp úr því að við getum kynnst sem best sjónarmiðum þeirra og tekið upp þau mál sem sameiginleg eru milli þjóðanna. Eins liggur það fyrir, sem er nýmæli, að við Íslendingar ásamt Færeyingum, formenn utanríkismálanefnda og fleiri úr utanríkismálanefndum, munum sækja Grænlendinga heim. Grænlendingar standa frammi fyrir margvíslegum spurningum og vandamálum sem snúa að utanríkismálum, bæði á sviði umhverfismála og sem tekur einnig á ýmsum öðrum þáttum. Þessar þrjár þjóðir leggja upp úr því að standa saman út á við sem inn á við. Einn þátturinn í því er að opna ræðismannsskrifstofu í Grænlandi.

Það er mjög mikið þakkarefni að hæstv. utanríkisráðherra skyldi hafa tekið ákvörðun um að slík skrifstofa yrði opnuð í Færeyjum nú á dögunum, 1. nóvember. Við höfum tekið þetta mál upp við Grænlendinga og ég vonast til þess að það mál geti komist á rekspöl og sömuleiðis að fríverslunarsamningur verði gerður á milli þessara þriggja landa, Íslands, Færeyja og Grænlands. Við Íslendingar höfum á síðustu árum gert fríverslunarsamninga við æ fleiri þjóðir, fjölmargar þjóðir, og er merkilegt margt þar á döfinni eins og undirbúningur að fríverslunarsamningi milli Íslands og Grænlands, og eins við Kanadamenn. Við ríðum þar á vaðið en eins og við vitum hlýtur það að vera hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu að beita sér fyrir frjálsum viðskiptum á sem víðustum grunni og standa gegn því að ríkið styðji með opinberum framlögum atvinnuvegi sem byggja á nýtingu á auðlindum hafsins. Í því efni vil ég sérstaklega nefna að á alþjóðavettvangi höfum við reynt að beita okkur gegn því að ríki styrki fiskveiðar en þær skýrslur sem nú hafa borist um að yfir vofi að fjöldi fiskstofna kunni að hverfa vegna ofveiði hlýtur að ýta við okkur um leið og það er ánægjulegt að geta frá því skýrt að í umfjöllun um fiskveiðistefnu okkar Íslendinga í erlendum blöðum kemur víða fram hversu vel við höfum staðið að nýtingu fiskstofna hér á Íslandi.