133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:15]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú konan ekki falleg í framan þegar hún hrækir út úr sér orðinu lygi að ástæðulausu. Nú er það svo að hv. þingmaður tók upp hanskann fyrir Sovétríkin og fylgiríki þeirra í sambandi við Víetnam og gerði það aftur hér.

Auðvitað hef ég ekki lesið það sem hv. þingmaður skrifaði um utanríkismál á 9. áratugnum ef hv. þingmaður hefur gert það. Má vera að hv. þingmaður væri svo elskuleg að vísa mér á slíkar heimildir og þá mun koma í ljós hvernig þau skrif voru.

En það sem ég er að tala um er hver afstaða hv. þingmanns er til Bandaríkjanna og þeirrar utanríkisstefnu sem Bandaríkin og Vesturveldin hafa fylgt. Ég hef heyrt síendurtekin fáryrði hv. þingmanns í garð Bandaríkjanna.

Hið bandaríska þjóðfélag er síður en svo vont þjóðfélag. Það er einmitt mjög gjöfult þjóðfélag og mjög til fyrirmyndar hvernig mismunandi þjóðflokkar hafa búið þar saman um aldir og hvernig það þjóðfélag hefur þroskast og eflst. Við vitum líka að Bandaríkin hafa oft verið kölluð til til að slökkva elda í Evrópu. Við getum farið í bæði fyrri og síðari heimsstyrjöldina ef út í það er farið, ef á að fara að rifja upp mannkynssögu fyrr og síðar.

Ef við á hinn bóginn tölum um Írak þá vissu menn ekki betur en þeir væru með kjarnorkuvopn í smíðum. Og enn er það svo í þeim heimshluta að heimurinn stendur á öndinni yfir því ef sú yrði niðurstaðan að Íran kæmi sér upp kjarnavopnum og menn vita ekki um afleiðingar þess. Hið alþjóðlega samfélag er því að reyna að berjast á móti þvílíkri þróun.

Mér finnst líka að ekki eigi að vera að tala í einhverri léttúð um þær þrautir sem írakska þjóðin lifir nú. Heldur eigum við (Forseti hringir.) Íslendingar með öllum ráðum að reyna að stuðla þar að friði og öryggi.