133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skilgreining vega og utanvegaaksturs.

333. mál
[13:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég fagna því að vinna hafi farið fram í ráðuneytinu og að þar muni brugðist við þessari óvissu. Tónninn í ræðu hæstv. ráðherra var sá að hafa ætti samráð og koma til móts við útivistarfólk um allt land, fólk sem virðir náttúruna. Þetta er gríðarlega mikilvægt, ekki síst það að virkja samtök sem hafa greiðan aðgang að útivistarfólki. Einnig vil ég benda á að það þarf að samræma þau kort sem fólk fer eftir.

Mér líst ekki illa á þá leið sem hæstv. ráðherra boðar en ég hefði þó helst viljað að lög færu að mestu í fyrra horf og bendi á að hálendi okkar á að vera opið. Staðreyndin er sú að flestir ferðamenn á hálendinu eru náttúruunnendur, sérstaklega þeir sem ferðast að ráði. Þeir sjá því mikinn hag í að fara vel með landið sitt og nota til þess skynsemi sína.

Víða á hálendinu eru svæði þess eðlis að léttvæg umferð um þau markar engin för í landinu. En stór hluti hálendisins er hins vegar viðkvæmur og þolir litla sem enga umferð. En stærð þessa svæðis er mjög breytileg og fer m.a. eftir árstíma og vatnsstöðu.

Vanir ferðamenn hafa almennt reynslu og skynsemi sem þarf til að greina á milli svæða sem eru í lagi og ekki í lagi með tilliti til léttvægrar umferðar. Hagsmunasamtök útivistarfólks hafa sýnt það í verki að hægt er að ná til þeirra sem minni reynslu hafa. Ég held að það sé mjög eðlilegt að fela þeim það hlutverk í auknum mæli og vil ítreka að ég fagna því samráði sem hæstv. umhverfisráðherra boðaði í ræðu sinni.

Við verðum að fara að ganga frá þessum málum. Óvissan hefur ríkt í mörg ár og nú er svo komið, þegar menn eiga von á að þyrlur frá lögreglunni séu sveimandi yfir þeim í sunnudagsbíltúrum, að staðan er algerlega ólíðandi. Ég vonast til að þetta muni skýrast fljótlega.