133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:33]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér þykir þetta vera sérstakt upphlaup hjá hv. þingmanni, ekki síst í ljósi þess að hv. félagsmálanefnd setti málið í ákveðinn farveg á fundi sínum í gærmorgun. Við erum með lög um lögheimili til umfjöllunar og ég beindi málinu í þann farveg að kanna hvort hægt væri að breyta lögum í þá átt að einhver leið yrði fundin til að það fólk sem býr í atvinnuhúsnæði njóti réttinda.

Hins vegar eru lögin nokkuð opin, eins og segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Lögheimili skal, svo framarlega sem unnt er, talið vera í tilteknu húsi við tiltekna götu eða á tilteknum stað“ o.s.frv. Þarna er töluverð rýmkun.

Einnig hafa sveitarfélög, sum hver, ýmislegt út á þetta að setja. Ég vitna í umsögn Reykjavíkurborgar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sjálfstætt vandamál sem orðið hefur meira vart nú á síðustu árum er þegar iðnaðarhúsnæði er leigt sem íbúðarhúsnæði til erlends verkafólks sem þekkir ekki rétt sinn, talar ekki tungumálið og því auðvelt að brjóta á því. Þetta húsnæði uppfyllir almennt ekki með nokkru móti þær kröfur sem gera verður til leiguhúsnæðis. Ef ekki verður komið í veg fyrir skráningu lögheimilis í atvinnuhverfum borgarinnar eru líkur á að þessi vandi aukist og jafnvel hætta á að eins konar gettó fyrir erlent vinnuafl myndist og því brýnt að spornað sé við þessari þróun.“

Það er því alveg ljóst að hér er um mjög flókið mál að ræða. Ég talaði við fólk úr félagsmálaráðuneytinu í gær til að flýta fyrir því að brugðist verði við þessu þannig að félagsmálanefnd geti tekið á málinu. Ég tek undir það að þessi þróun er óeðlileg, og ömurlegt að horfa upp á aðbúnað margra í þessari stöðu. Hins vegar ítreka ég að umræða um þetta fór fram í hv. félagsmálanefnd í gær. Allir nefndarmenn voru á því að skoða þetta mál og ég vonast til þess að koma hreyfingu á það á eðlilegum vettvangi, þ.e. í hv. félagsmálanefnd.