133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:11]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög merkilegt þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að taka verði mark á því þegar forustumaður flokksins segir slíkt. Ég er alveg sammála honum og þess vegna væri ágætt að heyra skoðanir hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á því hvað varaformaður Samfylkingarinnar eða leiðtogi framboðslista Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi, ég man nú því miður ekki nafn hans, (Gripið fram í: Gunnar Svavarsson.) Gunnar Svavarsson, segja um þetta mál. En ég man sérstaklega eftir viðtölum við þessa tvo menn þar sem þeir svara því til að þeir séu fylgjandi því að breyta rekstrarformi RÚV í RÚV ohf.

Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti því að fara varlega í svona yfirlýsingar. Það vill þannig til að það eru menn innan hans flokks sem eru mjög fylgjandi þessu frumvarpi.

Það vekur líka athygli að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, sem er varaformaður Samfylkingarinnar, hefur kosið að tjá sig ekkert um þetta mál. Það væri mjög fróðlegt ef hann hefði séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu.

Mig langar að lokum, virðulegi forseti, að vitna í ágæta grein sem ég var að lesa eftir mjög virtan rithöfund, Þórarin Eldjárn, þar sem hann talar um, með leyfi forseta:

„… sem betur fer má nú sjá þess merki að stjórnvöld hafi áttað sig á því. Mikilvægur liður í þeirri sókn,“ þá er hann að tala um baráttuna gegn áhrifum enskunnar, „verður sú nútímavæðing á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem ríkisstjórnin hefur með vanmáttugu meirihlutaofbeldi reynt að koma í gegn á Alþingi um nokkurt skeið. Vonandi er að þessu ofbeldi fáist framgengt sem allra fyrst. Þó illt sé er það nefnilega svo miklu skárra en minnihlutaofbeldið.“

Það er þannig að fólk í þjóðfélaginu er að átta sig á því að þessar breytingar verða að ganga í gegn og ég lýsi hér eftir afstöðu varaformanns Samfylkingarinnar sem hefur ekki séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu.