133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

búsetumál geðfatlaðra í Reykjavík.

284. mál
[13:32]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ráðherra fór hér yfir áætlanir fyrir næstu ár. Við skulum muna að þetta er fimm ára verkefni og þó að við hefðum viljað sjá allar þessar íbúðir komast til framkvæmda strax þá virkar það því miður ekki þannig. Fasteignamarkaðurinn hér á höfuðborgarsvæðinu var erfiður framan af en er nú farinn að vinna betur með okkur. Það er kannski stærsta ástæðan fyrir því að landsbyggðin hefur komið svo sterkt inn í þetta verkefni. Annar punktur í þessu er sá að við verðum að geta mannað allar stöður í kringum íbúðirnar.

Það er þó mikilvægast að við byggjum uppbygginguna á þeirri hugmyndafræði sem við kynntum í haust og að baki henni er mjög mikil vinna. Ég vil nota tækifærið og þakka hlý orð hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi þessa stefnumótun. Varðandi Flókagötuna ætla ég að verða fyrst til þess að viðurkenna að breytingarnar þar hafa ekki gengið eins og skyldi og tökum við það að sjálfsögðu á okkur. Nú horfir til betri vegar og það er fullur vilji til þess að klára hana sem fyrst. Ég veit að það er allt í fullum gangi en ég vildi koma þessu að hér.