133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:49]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar stóð í stuttan tíma. Ég tel að hún hafi ekki haft mikil áhrif á framgang framkvæmda en ef menn eru að draga einhverjar framkvæmdir út úr og segja: Þarna er engin þensla og þess vegna þarf ekki að gera þetta, þá geta verið alveg rök fyrir því.

En hins vegar verð ég þó að minna á að vegagerð er landsmál og markaðurinn í verktöku í vegagerð er landsmarkaður þar sem vegaframkvæmdirnar eru. Ríkisstjórnin hefur legið undir miklu ámæli, m.a. í þessum sal, fyrir þenslu og ég get alveg skilið að það væri á dagskrá hjá ríkisstjórninni á síðasta sumri að draga úr þenslu. Aftur á móti hef ég svo skoðun á því hvar þenslan er. Þenslan er ekki eingöngu vegna Kárahnjúkavirkjunar eins og Vinstri grænir hafa alltaf haldið fram. Þenslan er á höfuðborgarsvæðinu. Þenslan er ekki eingöngu vegna virkjunarframkvæmda á Austurlandi, eins og flokksbræður hv. þingmanns og hv. þingmaður hefur haldið fram. Þenslan er hér. Þetta var tilraun til að slá á vegaframkvæmdir og margs konar fleiri framkvæmdir sem voru í bígerð þá. En þetta er aðgerð sem er liðin og hafði ekki ýkjamikil áhrif, held ég.