133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:45]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018. Þá er rétt fyrst að reyna að gera sér grein fyrir hver sé tilgangurinn með því að gera samgönguáætlun til svo langs tíma.

Ef við horfum aftur til sögunnar blasir við að langtímaáætlun lá fyrir á árinu 1991, búið var að afgreiða hana úr fjárlaganefnd, hún var unnin í samráðshópi allra flokka sem m.a. ég og hæstv. samgönguráðherra sátum í. Ég var ósammála þeirri langtímaáætlun eins og hún lá fyrir. Ég varð síðan samgönguráðherra og auðvitað lagði ég þá langtímaáætlun til hliðar því að ég hafði aðrar áherslur en sá samgönguráðherra sem þá hafði setið.

Þegar ég lagði síðan fram langtímaáætlun árið 1998, sem var samin út frá nýjum viðhorfum sem upp komu í Vegagerðinni og það má segja að verkfræðingar Vegagerðarinnar réðu í höfuðdráttum útliti þeirrar áætlunar. Þeir voru höfundar að þeirri stefnu sem þá var tekin upp, eins og kom fram í framsöguræðu minni fyrir ályktuninni, vegna þess að þeir töldu á þeim tíma að þörf væri á nýjum áherslum í vegamálum. Þær áherslur byggðu m.a. á því að reyna að tryggja innan áætlunarinnar að allir þéttbýlisstaðir á Íslandi yrðu tengdir við hringveginn með bundnu slitlagi og að á þeim áætlunartíma yrði einnig lokið uppbyggingu hringvegarins.

Þegar ég síðan hætti kom nýr samgönguráðherra og hann hafði aðrar áherslur en ég í vega- og samgöngumálum, og auðvitað draga þær áætlanir sem síðan hafa verið gerðar dám af stefnu hans og er ekki neitt við því að segja. En ef við berum saman þessar áætlanir allar getum við lesið út úr þeim mismunandi áherslur umræddra manna og mismunandi sýn í samgöngumálum.

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að samgönguráðherra leggi fram samgönguáætlun til langs tíma til viðmiðunar. Það er líka nauðsynlegt vegna þess að nú er lengri aðdragandi að framkvæmdum en áður var. Nú þarf að leggja umhverfismat á þær framkvæmdir sem menn ætla sér í. Strangari reglur eru um skipulag og ýmsa aðra þætti. Aðdragandinn er því miklu lengri en áður að framkvæmdunum. Það er af þeim sökum sem nauðsynlegt er að hafa áætlun til langs tíma. Ég hef m.a. velt því fyrir mér hvort ekki sé skynsamlegra að skammtímaáætlunin væri til sex ára frekar en fjögurra vegna þess langa aðdraganda sem er að einstökum framkvæmdum, eins og við getum séð víða um land nú og við höfum fundið mjög rækilega fyrir í Norðausturkjördæmi, bæði í Norðurárdal, í Skagafirði, að Dettifossvegi, Hólaheiði o.s.frv. En á hinn bóginn yrði síðan lögð fram önnur áætlun til lengri tíma sem yrði kynning á stefnu ráðherrans og ekki væri ætlast til að Alþingi afgreiddi sem vilja sinn og ályktun sína. Ég álít með öðrum orðum að ekki sé hægt að horfa á langtímaáætlun í vegamálum þeim augum að það sé heilagt skjal.

Þetta sáum við mjög glögglega nú. Það var skýrt tekið fram þegar síðasta langtímaáætlun var hér til meðferðar að þrenn jarðgöng væru sérstaklega til athugunar, þ.e. til Norðfjarðar, milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, og til Vopnafjarðar. Og sérstök áhersla var lögð á að rannsóknafé skyldi varið til að athuga þau jarðgöng. Síðan voru Vopnafjarðargöngin lögð á hilluna, lögð til hliðar, sparkað út í horn án þess að Alþingi kæmi þar að, í þeirri skýrslu sem fyrir liggur eða beiðni um umhverfismat á ákveðnum leiðum, sem auðvitað sýnir okkur að embættismenn og viðkomandi ráðherra hefur öll tök á því að breyta áherslum í langtímaáætlun án þess að þingið komi þar að. Þetta skulum við hafa í huga.

Ég vil í öðru lagi lýsa þeirri skoðun minni að ekki er raunhæft að hugsa sér sjóflutninga. Ég lét sérstaklega athuga það þegar ég var samgönguráðherra hvort möguleiki væri á því að reka slíka flutninga frá Akureyri austur um land til Vestmannaeyja og til baka aftur og þá út frá því gengið að það tæki skipið vikutíma, og það var engin glóra í því né öðrum áætlunum sem þá voru uppi. Á þeim tíma var Skipaútgerð ríkisins rekin með halla sem nam 1 milljón á dag.

Þegar við tölum um skuggagjöld og veggjöld þá er það um skuggagjöld að segja að slíkt var rækilega til athugunar fyrir 15–20 árum í öðrum löndum, í minni tíð. Þetta var aðferð til að ganga til þess að hægt væri að ná fé til vegagerðar fram hjá fjárlögum að taka lán hjá einstaklingum, fyrirtækjum eða sjóðum. Að ríkið feli slíkum aðilum að fjármagna vegi er dýrara en að ríkið sjálft taki lánin og þar fram eftir götunum. Þess vegna er þetta röng leið og hefur ekkert sér til ágætis. Á hinn bóginn eru vegir boðnir út, þannig að það er auðvitað einkaframkvæmd. Ef menn vilja fela einhverjum einstaklingum að reka vegi þá gott um það, en á hinn bóginn ef veggjöld eru þá horfir málið öðruvísi við vegna þess að þá greiða þeir fyrir veginn sem um hann fara.

Ég hafði áður lagt áherslu á hringveginn og ef menn á annað borð vilja taka mark á langtímaáætlun til ársins 2018 er óhjákvæmilegt að setja sér markmið í sambandi við hringveginn. Ég vil beina því til formanns samgöngunefndar sem ég sagði um þau efni en ekki láta það vera fljótandi eins og hér er.

Í annan stað vekur það athygli að við erum nú á Alþingi með til meðferðar Vatnajökulsþjóðgarð. Fyrir tveim eða fjórum árum, hygg ég, voru þjóðgarðsvegir teknir upp í samgönguáætlun vegna þess að sú var skoðun hæstv. samgönguráðherra að það ætti að liggja vegur með bundnu slitlagi um þjóðgarðinn, það var skoðun hans. Gott um það. Í skammtímaáætlun eru þjóðgarðsvegir, en einn þjóðgarðsvegurinn er skilinn eftir hálfkaraður, þjóðgarðsvegurinn frá hringvegi niður í Kelduhverfi með Jökulsá á Fjöllum. Eins og fjögurra ára samgönguáætlun lítur út vantar 200 milljónir upp á að fjármagnið dugi til vegarins frá hringvegi niður að Dettifossi og svo frá Kelduhverfi upp í Hljóðakletta. Þá er eftir vegurinn um Hólmatungur sem kostar 530 milljónir. Það vantar því 730 milljónir til að ljúka þjóðgarðinum.

Nú væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvort samgönguráðið missti áhuga á þjóðgarðinum allt í einu eftir að þjóðgarðsvegurinn var kominn fyrir jökul. Það er mjög undarlegt að hætta svona í hálfu kafi. Ég vil líka segja við formann samgöngunefndar: Við erum nú með Vatnajökulsþjóðgarð til meðhöndlunar hér í þinginu og það gengur nógu erfiðlega að ná því saman, ég tala nú ekki um eftir þjóðlendumálin, þó að menn komi ekki til móts við Þingeyinga með því að nægilegt fé sé undir þessum lið til að leggja veg frá Kelduhverfi upp í Hljóðakletta. Það getur þá beðið næstu áætlunar að brúa bilið frá Hljóðaklettum upp að Dettifossi.

Þetta svæði er eitthvert hið fegursta á landinu. Það er jökulsárhlaup á hverju ári, fólki fjölgar frá einu ári til annars sem þar hleypur. Ég man ekki hvort það voru þrjú þúsund manns sem tóku þátt í því síðast. Mjög fallegar gönguleiðir eru alla þessa leið. Og auðvitað er nauðsynlegt að fylgja þessu eftir og eins að þessi vegur komi inn í stofnvegakerfið — sem ég beini til formanns samgöngunefndar — eins og vegurinn um Öxi. Auðvitað er þetta sambærilegt við ýmsa aðra vegi eins og Lyngdalsheiði og þar fram eftir götunum. Það er nú svo um Norður-Þingeyjarsýslu stundum hér á Alþingi, eins og þetta sama svæði í Landnámu, að það er svo langt frá höfuðstöðvunum að enginn man eftir því og enginn veit raunar hverjir þar búa.

Ég vil líka segja, frú forseti, að það vekur athygli mína í langtímaáætluninni sem ég ekki skil, þ.e. þegar raðað er upp breikkun brúa. Nú vitum við að langflestar einbreiðar brýr á hringveginum eru á Austurlandi. En svo fer maður að skoða fjárveitingar til þessa verkefnis, að fækka einbreiðum brúm. Þá kemur í ljós að breikkun brúa á Suðurlandi á öðru og þriðja tímabili er 1.220 milljónir, í Norðvesturkjördæmi 1.010 milljónir en í Norðausturkjördæmi, þar sem brýrnar eru flestar, 450 milljónir. Það er ekki einu sinni helmingurinn af því sem er á Vesturlandi, hvað þá því sem er á Suðurlandi, og þó eru flestar brýrnar á Austurlandi, í Norðausturkjördæmi.

Ég held, formaður samgöngunefndar, að óhjákvæmilegt sé að nefndin athugi hvað liggi hér til grundvallar, hvernig á þessu stendur. Það sjá allir að ég mun ekki greiða atkvæði með þessu svona, nema fá einhvern verulegan rökstuðning fyrir því, það gæti ég ekki gert, ég held að það sé alveg ljóst.

Ég vil segja að lokum, frú forseti, um leið og ég legg áherslu á að samgönguáætlun til langs tíma verði að leggja fyrir þingið, en ég álít með öðrum orðum að endurskoða eigi þetta allt saman, skemmri áætlunin eigi að vera til sex ára o.s.frv. Það getur verið að það sé rangt, menn verða að ræða það, og ég tæki mikið mark á Vegagerðinni og Siglingastofnun í þeim efnum. En ég hygg að nauðsynlegt sé að áætlanir eins og þessar séu betur og meira ræddar meðan verið er að vinna að þeim við þá menn sem eru fulltrúar fólksins á svæðunum. Ég álít að samgönguráð eigi að ræða við þingmenn um þær áherslur sem þeir hafa til að víkka sjóndeildarhring sinn og gera sér betur grein fyrir því verkefni sem þeir eru að fást við. Auðvitað er það nauðsynlegt.

Það segir mín langa reynsla á Alþingi að um vegamál og samgöngumál er mestur friður og best niðurstaða þegar við leggjum saman. Ó-vegirnir voru unnir á þeim grundvelli, svo ég taki dæmi. Í raun og veru var pólitísk samstaða um þá nýbreytni sem Hvalfjarðargöngin voru. Ég álít því að það sé nauðsynlegt að breiðari grunnur sé á bak við þessar áætlanir en nú er.