133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:09]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Alveg var þetta dæmalaus málflutningur. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart að öðru leyti en því að fyrir þann sem hugsanlega væri að hlusta á umræður á Alþingi lítur það þannig út að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi ekki hugmynd um hvers konar heimildir hann er að kynna. Ég er að inna hann eftir því hvort hann sé kominn með þannig heimildir og sé að setja í lög að hann sem landbúnaðarráðherra, eða nýr landbúnaðarráðherra í næstu ríkisstjórn, geti úthlutað að geðþótta heimildum fyrir innflutningi, tollamagni, litlu eða miklu eftir því hvernig landbúnaðarráðherra væri sinnaður hverju sinni. Menn heyrðu hvernig hæstv. landbúnaðarráðherra svaraði. Fyrir nú utan það að æ ofan í æ skuli það gerast að ef þingmaður óskar að ræða skynsamlega um landbúnaðarmál eða iðnaðarmál eða hvert annað álitamál og er ekki sammála viðkomandi ráðherra í þessari sérstöku ríkisstjórn sé bara sagt: Þingmaðurinn ber litla virðingu fyrir málinu. Þingmaðurinn Rannveig Guðmundsdóttir ber litla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði. Munur en vér sem stöndum vörð um landbúnaðinn.

Það vantar ekki að ráðherrann segi: Við ætlum að lækka matarverðið. Já, þeir ætla loksins að lækka matarverðið enda er búið að hamast í því í fimm ár að fá þá til þess. Við erum að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins, já, EES-samningsins sem þessi ráðherra greiddi á sínum tíma atkvæði gegn á meðan flokkurinn minn barðist gegn því að allt færi í kaldakol ef markaðir brystu eða aflatregða eða aflatap yrði algert í landinu. Á því er ríkisstjórnin, á því er hæstv. landbúnaðarráðherra búinn að fljóta að samningur sem hann greiddi atkvæði gegn var gerður, er búinn að fljóta á því með öllu sem sá samningur opnaði fyrir.

Hæstv. ráðherra sagði núna: Við erum að gera fyrsta samkomulagið um gagnkvæma tollkvóta við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins um magn kvóta, um kjötvörur, osta og eitthvað eitt til og í staðinn fáum við útflutning fyrir skyr, smjör og pylsur. Þetta er skýr lagaheimild og alger nýjung. Svo kemur þingmaðurinn og segir: Hvað eru heimildirnar miklar? Hangir heimildin á innflutningi kjötvörunnar á því hvað Evrópusambandið er tilbúið að kaupa af okkur mikið af skyri eða smjöri eða pylsum? Ekkert svar. Hverjar eru heimildirnar í raun ef landbúnaðarráðherra, hver svo sem hann er, vill gera eitthvað meira eða eitthvað minna? Þarf að búa til nýjan samning eða er nú kominn samningur sem er talsvert opinn og finnst í honum svigrúm? Þá kemur svarið: Þingmaðurinn ber litla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði. Nú skulum við ræða það aðeins nánar. Ég verð að segja að þó að þessi gjaldþrotasetning, sem maður heyrir aftur og aftur, sé notuð þegar menn komast í rökþrot og ráða ekki við málið er mér farin að finnast heldur mikil minnkun að þessum málflutningi fyrir þann ráðherra og þá flokka sem eiga í hlut. Þetta er ósæmilegt og þetta er rangt.

En það sem betra er er að sú sem hér stendur hefur bæði skrifað um þessi mál og flutt tillögur um þau og því veit þjóðin að hún ber ekki litla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði. Það er vandi þessa hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir utan það að sú sem hér stendur metur íslenskar landbúnaðarvörur svo mikils að hún er sannfærð um að þær muni gera meira en að standast samanburð við innflutning hvað gæði vöru varðar. Það breytir því ekki að maður á ekki, af því að maður sjálfur er sannfærður um að þannig sé það, að ákveða fyrir fjöldann að allir skuli éta þær. Ef maður vill að fólkið eigi sjálft val og trúir að það geti jafnvel orðið til góðs fyrir íslenskan landbúnað verða stjórnarliðar rökþrota og koma með yfirlýsingar af þessu tagi.

Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði annað. Hann sagði: „Á vettvangi WTO munum við undirbúa okkur undir það smátt og smátt að innflutningur geti orðið meiri og það mun þá þýða“ — og ég les það þannig — „að þar með verði tollar í ríkari mæli felldir niður“, og eitt af því sem á að gerast varðandi það að undirbúa er að stækka búin og þar er ég nefnilega sammála þessum hæstv. landbúnaðarráðherra.

Það er mikilvægt að hafa í huga að á þessum tíma eru dramatískir hlutir að gerast í landinu. Það er orðin ásókn í bú og jarðir til frístundaiðkana. Landbúnaði er haldið í spennitreyju, menn geta ekki stækkað búin. Frábært væri fyrir bónda að geta eignast með tíð og tíma næstu bú og næstu jarðir ef sá sem þar býr ákveður að bregða búi. En hann hefur ekki svigrúm til þess að eignast þá jörð. Þá er mikil hætta á því að sú jörð leggist undir frístundabúskap og í næstum því öllum sveitahéruðum og sveitarstjórnum sveitahéraða hafa menn áhyggjur af þeirri þróun. Þessi umræða hefur verið tekin upp á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem menn frá sveitarstjórnum, hugsandi menn, lýsa því yfir að þetta sé alvarleg þróun sem geti staðið í vegi fyrir því sem þarf að gerast, staðið í vegi fyrir því að bú stækki og menn geti komist yfir jarðir til þess að mæta þeirri þróun sem hæstv. landbúnaðarráðherra nefndi.

Hæstv. landbúnaðarráðherra vildi að smátt og smátt yrðu íslensk bú búin undir þá samkeppni samkvæmt WTO sem hann boðaði að kæmi þrátt fyrir allt, hvað sem mönnum sýndist um það hér. Jafnvel þó að til valda kæmust mjög afturhaldssamir landbúnaðarráðherrar — ég ætla að undirstrika að ég nota það orð ekki sem lýsingu á þeim landbúnaðarráðherra sem hér hefur talað — þá vaknar þessi spurning: Í ljósi þess að búið er að kynna nýverið búfjársamning upp á 19,8 milljarða, 3,3 milljarða á ári, af hverju í ósköpunum var ekki farið í endurskoðun á fyrirkomulagi á stuðningi við bændur í nýja samningnum? Af hverju í ósköpunum var ekki samið um með hvaða hætti væri hægt smám saman að fella niður tolla, auka innflutning en samt styðja við möguleika bænda á að þróa stöðu sína eins og hæstv. landbúnaðarráðherra sagði sjálfur. Svo að ég noti hans eigin orð sagði hann að smátt og smátt þyrfti að búa bændur undir breytingarnar. Hvers vegna í ósköpunum var ekki með einhverjum hætti tekin upp umræða og reynt að skipuleggja hlutina þannig að þegar horft er sex ár fram í tímann sé tekið á þessum nýja stuðningi?

Ég tók líka eftir því að í þessu þingmáli er þess getið — það er í umsögn fjármálaráðuneytisins — að gjald fyrir tollkvóta getur aukið tekjur ríkissjóðs en aukin úthlutun tollkvóta rýrir ekki tekjur ríkissjóðs. Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti, á mæltu máli? Þetta þýðir á mæltu máli að tollar gefa ekki mikið í ríkissjóð. Tollar eru ekki mikil tekjulind fyrir ríkissjóð. Að fella niður alla tolla af landbúnaðarvörum mundi þýða 300 millj. kr. fyrir ríkissjóð á móti því að gera mætti ráð fyrir 1,8 milljörðum inn vegna veltuáhrifa. Ég vek athygli á þessum tölum af því að 1,8 milljarðar eru há fjárhæð en samt miklu minna en þeir 3,3 milljarðar sem verið er að ákveða í búfjársamningnum árlega. Möguleikarnir til að gera skipulagsbreytingar og bæta þá frekar í, nota það fjármagn sem fengist til að gera betur og öðruvísi við bændur, aukast frekar en minnka. Nettóhagnaður ríkissjóðs af niðurfellingum tolla, ef það væri gert alveg, væri nefnilega 1,5 milljarðar á ári. Nú mundi hæstv. landbúnaðarráðherra segja ef hann kæmist strax í stólinn: Þingmaðurinn ber enga virðingu fyrir íslenskum landbúnaði, er bara tilbúin til að fella niður alla tolla og láta vondar vörur streyma inn í landið og eyðileggja öll búin á Íslandi. Það er ekki rétt.

Við í Samfylkingunni höfum lengi talað um þörf á því að lækka matvælaverð. Tillögur okkar voru með fyrstu málum sem komu inn í þingið í haust. Tillögur okkar voru á þá leið að vörugjöld á matvæli yrðu öll felld niður — öll til þess að þessi aðgerð væri einföld og stjórnsýslan einfaldaðist. Það ætti ekki að vera þannig að alltaf þyrfti að gá að vörunúmeri og spyrja hvort vörugjald væri á því eða ekki. Við lögðum til að aðgerðir sem eru nauðsynlegar til að draga úr sykurneyslu yrðu á einhverju öðru sviði, ekki með neyslustýringu í gegnum vörugjöld. Að tollar á matvælum yrðu felldir niður í áföngum og niðurfelling tolla yrði ákveðin að höfðu samráði við hagsmunasamtök bænda og neytenda. Þá ætla ég að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvernig samkomulag var gert við hagsmunasamtök bænda og neytenda varðandi þær magntollaheimildir sem samið var um núna í tengslum við það mál sem hér er flutt? Hvernig viðræður voru teknar upp?

Við lögðum jafnframt til að virðisaukaskattur yrði samræmdur og 7% virðisaukaskattur yrði lagður á öll matvæli. Við lögðum til að í samráði við bændur yrði fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað breytt til að gera bændum kleift að aðlagast aukinni samkeppni vegna innflutnings. Auk þess verði gerður sérstakur tímabundinn aðlögunarsamningur við bændur vegna niðurfellingar tollverndar og að samkeppnis- og verðlagseftirlit á matvælamarkaðnum yrði stóraukið. Við teljum að með tillögum okkar yrði hægt að lækka matarreikning heimilanna um 200 þús. kr. á ári út frá því að það er talið að fjögurra manna heimili noti um það bil 750 þús. kr. í mat sem sennilega er of lágt metið.

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra gefið það upp að með tillögum ríkisstjórnarinnar megi reikna með að matarverð lækki um 16%. Mér sýnist að miðað við 750 þús. kr. í útgjöld fyrir fjögurra manna fjölskyldu gæti þetta þýtt allt að 110 þús. kr. á ári. Það er gott skref þó það sé ekki jafnstórt og okkar og mjög mikilvægt að farið er að stíga rétt skref. Ég hef þó áhyggjur vegna þess að ýmis samtök á markaði hafa sett fram yfirlýsingar um að þau óttist að þetta verði ekki 16% heldur e.t.v. 10%. Ég ætla að leyfa mér að láta í ljós þá ósk úr ræðustóli, virðulegi forseti, að þessir aðilar hafi ekki rétt fyrir sér. Af því að virðisaukaskattur leggst á síðasta stig en tollar og vörugjöld á millistig í viðskiptum og verslunarálagning og virðisaukaskattur þar á ofan, og það hefur mikil uppsöfnunaráhrif, teljum við mikilvægt að einfalda álagningarkerfið eins og unnt er. Við teljum að það muni koma öllum til góða.

Við teljum líka gífurlega mikilvægt að reynt sé að vinna þannig að málum að bændur fái ekki eingöngu 20–40% af verðinu til sín eins og er í mörgum tilfellum. Við teljum mjög mikilvægt að búvörulög verði endurskoðuð, sérstaklega með tilliti til þess að nema burt ákvæði sem skilja landbúnað undan almennum samkeppnislögum. Það er gríðarlega mikilvægt að fylgjast vel með verðmyndun landbúnaðarvara svo að hægt sé að greina hvernig verðið myndast á leiðinni frá bóndanum og þar til neytandinn kaupir vöruna. Hvar og hvernig verður lokaverðið til? Það er líka mikilvægt að öll matvara lúti eftirliti, að fylgst sé með verðmyndun á allri matvöru, ekki bara þeirri sem er framleidd hér.

Ég hef gripið niður í mörg meginatriði þar sem kemur ljóslega fram að við í Samfylkingunni höfum í tillögum okkar ekki eingöngu horft á málin út frá hagsmunum neytenda heldur jafnframt út frá hagsmunum bænda. Ég frábið mér þess vegna að mér séu gerðar upp skoðanir eða tilfinningar gagnvart einhverjum tilteknum stéttum. Slíkar fullyrðingar eru rangar. En það er alveg ljóst að því hefur ekki verið svarað hvað felist í þessu frumvarpi og hverjar heimildirnar sem landbúnaðarráðherra er að festa í lög eru í raun og veru.