133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

áhrif rafsegulsviðs farsíma og rafsegulbylgna á mannslíkamann.

6. mál
[19:37]
Hlusta

Flm. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir jákvæðar undirtektir við þingsályktunartillöguna. Eins og hann gat um var hann með á þingsályktunartillögunni og það var fyrir algjöra slysni að hann er ekki með á henni núna, en ég veit að hann styður hana heils hugar.

Ég vil taka svo sannarlega undir að eitt af því sem þarf að gera, og mér finnst að stofnanir eigi að gera án þess að þeim sé í rauninni skipað það, er að draga úr skaðlegum áhrifum. Við eigum fullt af góðum vísindamönnum sem ég veit að eru að vinna í þessa átt. Þó eru allt of margir sem telja þetta vera bara tómt rugl og vitleysu en ég er sannfærð um að svo er ekki. Þetta hefur áhrif og ég vil bara brýna og mana vísindamenn okkar til að vinna meira að þessu og vera ekki tortryggnir á þetta eða halda því fram að þetta sé eitthvert rugl og vitleysa. Þó að það sé ekki áþreifanlegt hefur þetta áhrif á fólk, mismunandi áhrif, og þetta er eitthvað sem við eigum að vinna að að ráða bót á.