133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

slysavarnir aldraðra.

269. mál
[12:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Öflugar slysavarnir eru ómetanlegar og mikilvægt að öryggismál séu í lagi fyrir alla aldurshópa og ekki síst aldraða. Oft þarf ekki nema eina slæma byltu og heilsan er ekki lengur til staðar. Það er því mikilvægt að tryggja eldra fólki öryggi bæði á heimilum og utan þeirra. Í haust sat ég ráðstefnu um slysavarnir aldraðra en þar var kynnt það sem aðrar þjóðir eru að gera í þessum efnum og sumt af því sem við erum að gera.

Stór þáttur í slysavörnum aldraðra eru t.d. byltuvarnir. Þar eru aldraðir kallaðir í göngugreiningu og eru t.d. Ástralir með forgreiningu við ákveðinn aldur til að fyrirbyggja slys, til að finna þá sem eru í áhættuhópi. Víða eru hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðvum að sinna öldruðum í hverfinu með heimsóknum og fræðslu um þessi mál. Í nágrannalöndum okkar er víða hvatning til reglubundinnar hreyfingar, göngu og sunds, sem er reyndar hér á landi einnig, mætti jafnvel vera meira, en Brynjólfur Mogensen bæklunarlæknir sagði á ráðstefnunni að líkamsrækt væri besta yngingarmeðalið.

En hvað erum við að gera hér til að fyrirbyggja slys hjá þessum hópi? Það var spurt: Eru lög um hitaveituvatn nógu ströng? Eru kröfur um tæknilausnir í lögum til að fyrirbyggja bruna vegna hitaveituvatns? Slík slys eru algeng hjá öldruðum og börnum og reyndar hjá fleirum. Hafa heilbrigðisyfirvöld vísað því t.d. til Neytendastofu að hún beiti sér fyrir auknu öryggi aldraðra í verslunum? Þar er algengt að þeir brjóti sig og detti á meðan algengustu slysin á börnum í verslunum eru að detta úr innkaupakörfum.

Svona var umræðan um þessi mál á ráðstefnunni og bent á að endurskoða þyrfti ýmsa löggjöf með tilliti til öryggis aldraðra, t.d. hvað varðaði hópa með ýmsa alvarlega sjúkdóma, t.d. öldrunarsjúkdóma, og þar vantaði víða endurskoðun á lögum um öryggisþætti. Því spyr ég á þessu þingskjali hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvaða vinna hefur farið fram til að fyrirbyggja slys á öldruðum í heimahúsum, á heilbrigðisstofnunum og á hjúkrunarheimilum?

2. Telur ráðherra þörf á lagabreytingum til að ná betri árangri í slysavörnum aldraðra, og ef svo er, þá hverjar?

Ég nefndi nokkur dæmi sem komu til tals á ráðstefnu þeirri sem ég sat um slysavarnir aldraðra.