133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

endurmat á stöðu mála í Írak.

[10:40]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða þá skoðun hæstv. forsætisráðherra að öryggisástand fari batnandi í Írak. Það er hans skoðun. Ég ætla hins vegar að ræða þær fréttir sem komu í morgun og þá gífurlega þungu umræðu sem er búin að vera í þeim löndum sem nú eru að kalla sveitir sínar heim. Það er búinn að vera mikill þrýstingur almennings í þessum löndum á stjórnvöld að draga úr og hætta stríðsþátttökunni í Írak. Það er staðreynd sem blasir við og nú er verið að bregðast við því.

Það sem vekur líka athygli í fréttum morgunsins er að forustumenn vestan hafs lýsa því yfir að samstaða hinna svokölluðu viljugu landa eða ríkja sé ekkert að bresta. Hvað á að lesa úr þeirri yfirlýsingu? Þetta þýðir einfaldlega að Bandaríkjamenn líta svo á að þessi hópur viljugra sé enn þá bandamenn þeirra í stríðinu í Írak. Um þetta hefur endalaust verið togast á í umræðu á Alþingi. Bandaríkjamenn líta svo á að hópur viljugra landa frá því að innrásin var gerð sé enn þá bandamenn þeirra í stríðinu. Það er fullkomlega ósæmilegt sem stjórnarflokkarnir hafa iðkað, að blanda alltaf saman 300 millj. í stuðning við uppbyggingu í stríðshrjáðu landi og því að við skyldum styðja innrásina í Írak. Höfum við ekki stutt lönd þar sem við höfum ekki komið nálægt aðgerðunum sem urðu til þess að ástandið skapaðist? Þetta er bara aðskilið þó að ríkisstjórnin hengi það endalaust saman.