133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:08]
Hlusta

Frsm. landbn. (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, það er í höndum landbúnaðarráðherra að úthluta tollkvótunum samkvæmt 4. gr. þessa frumvarps og landbúnaðarráðherra birtir í reglugerð þær reglur sem gilda um úthlutun tollkvóta. Frumvarpið kveður ekki á um neina breytingu á því og engin breyting hefur verið boðuð á því.

Ég er að sjálfsögðu alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum ekki að slá af heilbrigðisreglugerðum og ég tel afar mikilvægt að gera það ekki. Það gefur augaleið og ég held að hæstv. landbúnaðarráðherra, sá sem nú situr, hafi lagt á það mjög mikla áherslu að varðveita hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða. Við erum alveg sammála um þá hlið málsins og þar greinir okkur ekkert á. Ég hygg að í framhaldinu þegar reglugerðin verður gefin út verði eðlilegar umræður um hvernig kvótum er úthlutað. Það er greinilegt að um það eru skiptar skoðanir og jafnvel innan verslunarinnar líka. Það er aftur umræða sem seinna verður tekin.