133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[19:14]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður átti, ef ég man rétt, sæti í auðlindanefndinni sem setti frá sér álit sem hefst þannig:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.“

Ég reikna með að auðlindanefndin hafi gengið út frá svipuðum forsendum og flutningsmenn þessa frumvarps, að þessum réttindum sé ráðstafað með lögum, að það sé í lagasetningu hvaða auðlindir þarna er um að ræða. Hins vegar hef ég auðvitað skoðanir á því hvað telst til náttúruauðlinda, það eru m.a. orkan og fiskimiðin og hvers konar réttindi þeim tengd.