133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

649. mál
[17:53]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2006, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálamálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Martin Eyjólfsson og Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Áslaugu Árnadóttur og Ólöfu Emblu Einarsdóttur frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Tilgangur þessarar tilskipunar er að auka virkni innri markaðarins og stuðla að háu stigi neytendaverndar með því að samræma lög, reglur og stjórnvaldsfyrirmæli um óréttmæta viðskiptahætti sem skaða hagsmuni neytenda og að mæla fyrir um fulla samræmingu á þeim sviðum sem tilskipunin tekur til. Innleiðingin mun m.a. fela í sér að útlista þarf nákvæmlega hvers konar viðskiptahættir teljist óréttmætir, villandi eða uppáþrengjandi. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og þarf að innleiða efni hennar fyrir 12. júní næstkomandi. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað verður lagafrumvarp hins vegar ekki lagt fram fyrr en á haustþingi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.