134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:37]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er allra mál nú um þessar mundir að staðan sé þannig í íslensku samfélagi að við þurfum mjög að gæta okkar. Það er allra mál að það sem blasir við okkur sé ákaflega hættulegt, að væntingar almennings hafa aldrei farið hærra jafnframt því sem einkaneysla almennings er því miður að aukast. Á slíkum tíma er ekkert jafnbrýnt fyrir stjórnvöld eins og að reyna að setja hemil á væntingarnar. Reyna að hemja þær með öllu móti. Vegna þess að efnahagslegt jafnvægi er forsenda allrar velferðar.

Hvernig það má vera undir þessum kringumstæðum er kannski erfitt að segja til um en þó vil ég meina að fátt sé mikilvægara en að skilaboðin frá nýrri ríkisstjórn séu hrein og skýr. Skilaboðin verða að vera þannig að menn treysti því og trúi að sú nýja ríkisstjórn sem nú hefur tekið við völdum sé ábyrg ríkisstjórn sem ætlar sér að ganga þannig fram veg að menn megi treysta því að hinn efnahagslegi stöðugleiki, sem er forsenda hins mikla velferðarsamfélags, muni blíva. Ég sjálfur, virðulegi forseti, trúi því af mikilli einlægni að þetta sé ábyrg ríkisstjórn. Ég trúi því og treysti að hún muni sýna það í verki.

En það er einmitt þess vegna, virðulegi forseti, sem mér er spurn: Hvaða nauð rekur þá ágætu ríkisstjórn til þess að flytja þessa þingsályktunartillögu? Ég skil það ekki. Ríkisstjórn setur sér markmið. Ríkisstjórn kemur fram með stefnuyfirlýsingu sína og það er ástæða til að trúa henni og treysta. Auðvitað var þess að vænta, og allir fögnuðu því, að þar kæmu fram þau sjónarmið að hér skyldi vera öflugt velferðarsamfélag, öflugt samfélag sem sæi um það að hér værum við á framfarabraut og á gæfubraut, öflugt samfélag sem ætlaði að styðja menntamál jafnt sem heilbrigðis- og félagsmál. Enginn efast um það. Enginn má efast um að hér hafi heilbrigð og réttlát ríkisstjórn tekið völdin.

Ég skil ekki af hverju þarf að setja þessi góðu markmið. Ég tek það fram, virðulegi forseti, allt sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu um börn og ungmenni eru auðvitað góð og falleg markmið. Auðvitað er þetta allt saman það sem allir vildu kveðið hafa. Það er enginn á móti þessu. En það er mjög rangt undir þessum kringumstæðum, það er mjög rangt að senda þau skilaboð fram núna að við ætlum að hafa einhvern forgang á því umfram annað þegar við þurfum fyrst og fremst að gæta að því að menn treysti því og trúi að það sé ábyrg efnahagsstjórn sem skiptir öllu máli.

Það má ekki gerast, virðulegi forseti, að þjóðin fái þá tilfinningu að einhver lausagangur eigi að vera hér á ríkisfjármálum. Það má bara alls ekki gerast. Þess vegna þarf umfram allt að brýna það aftur og aftur að þessi ríkisstjórn er fyrst og fremst ábyrg í peningamálum og efnahagsstjórn. Ef slík ábyrgð er til staðar þá mun allt hitt ganga ljúflega fram og enginn efast um það að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar fái tækifæri til þess að blómgast og eflast á þeim tíma sem fram undan er, næstu fjögur árin.

Það er fjölmargt sem sannarlega kemur fram í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem ástæða er til að ætla, vilja og vona að eigi sér framtíð á næstu fjórum árum. Málefni barna ekki hvað síst. Ég ætla ekki að leggjast neitt gegn því. En mér finnst óvarlega farið þegar byrjað er á því að búa til þingsályktunartillögu. Þingsályktunartillögu um einhvern hluta af stefnuskránni. Til þess er það. Er einhver saga til um að þetta hafi gerst áður? Að einhver hluti af einhverri stefnuskrá ríkisstjórnar sé tekinn og settur í þingsályktunartillögu? Nei. Það eru engin dæmi til þess. Þessari þingsályktunartillögu fylgja heldur engar áætlanir um hvað þetta kostar. Engar. Allt í lagi með það í sjálfu sér því það er ekki hægt að áætla margt af þessu því það er ótímasett.

En eigi að síður er hættan sú að það viðhorf skapist í samfélaginu að það sé ekki festa í ríkisfjármálum. Festa í ríkisfjármálum er algjör forsenda allra þeirra góðu verka sem menn ætla sannarlega að standa fyrir á næstu fjórum árum. Sannarlega forsenda þess.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá sé ég ekki hvaða nauð rekur stjórnina til að flytja þessa þingsályktunartillögu og þess vegna ætla ég ekki að styðja hana.