135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:25]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og þingreyndur maður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þekkir, þá flutti ég þetta mál og síðan kom það til kasta þingsins. Honum til upplýsingar get ég alveg sagt það að ég er búinn að fylgjast með umræðunni hér í kvöld en þetta mál er hins vegar á vettvangi þingsins eins og menn þekkja.

Mér hefði kannski fundist, eins og kom hér fram þegar ég fór aðeins yfir málið, að hann hefði mátt fylgjast betur með úr því að hann er að setja ofan í við menn almennt út af málinu. Enn og aftur er því miður þessi ágæti hv. þingmaður, Steingrímur J. Sigfússon, að reyna að leggja hlutina út með einhverjum öðrum hætti en þeir eru. Það liggur alveg fyrir hver er stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum. Hér er verið að leggja fram þetta frumvarp og ýmislegt annað hefur verið gert, t.d. í tengslum við lyfjamálin, sem eru nú ekki litlar breytingar. Ætli það séu ekki stærstu breytingar á lyfjamálunum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum ef ekki áratugum á Íslandi. Það hefur því margt verið að gerast í þessum málaflokki, það er mikil áhersla lögð á forvarnir og ýmislegt annað sem enn á eftir að koma í ljós. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður er að leggja út af orðum forsætisráðherra á þessum fundi á einhvern annan veg en kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum og eftir stjórnarsáttmálanum er unnið.

Ég tek hins vegar undir að þegar hlustað hefur verið á þessa umræðu í kvöld er í rauninni mjög erfitt að átta sig á því af hverju það er ekki fullkomin sátt um málið hér í þinginu því að það er ekkert sem kallar á óeiningu hvað þetta varðar, en eðli málsins samkvæmt ef menn ákveða að fara þá leið þá er það niðurstaðan.