136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði aldrei að vandamálin væru bara útlendingum að kenna. Ég sagði að þau væru að langmestu leyti tilkomin vegna alþjóðlegrar lánsfjárkreppu. Við vissum að þegar hinum stóru framkvæmdum mundi ljúka mundum við lenda inni í breytingaskeiði og gætum lent í erfiðleikum. Undir þá erfiðleika vorum við búin. Sem betur fer vorum við búin undir ríflega þá erfiðleika því ef við hefðum ekki verið undir það búin værum við í enn verri stöðu. Það eru fullar forsendur fyrir því að ræða fjárlagafrumvarpið sem hér hefur verið lagt fram — sem hv. þingmaður forðast að gera. Við eigum innstæður í Seðlabankanum til að standa undir þeim útgjöldum sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir þrátt fyrir að við séum að verða fyrir verulegum tekjusamdrætti. Það er ekki forsvaranlegt hjá hv. þingmanni að koma sér undan því að ræða frumvarpið vegna þess að það séu svo miklir erfiðleikar í efnahagslífinu og þar fram eftir götunum. Við vorum búin undir að erfiðleikar mundu líklega verða um þetta leyti og þess vegna eru til fjármunir til að standa undir afkomu ríkisins.