136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[22:44]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að við erum hér að taka fyrir langstærsta mál sem tekið hefur verið fyrir í lýðveldissögu Íslands. Ég geri eina kröfu, þ.e. að þeir sem bera ábyrgð á þessu frumvarpi séu við þessa umræðu. Hvar er hæstv. forsætisráðherra, hvar er hæstv. iðnaðarráðherra, foringjar stjórnarinnar um þessar mundir? Hvar er hæstv. viðskiptaráðherra? Það er virðingarleysi við stjórnarandstöðuna og þjóðina ef forustumenn ríkisstjórnarinnar halda að þeir þurfi ekki einu sinni að hlusta á það sem sagt er við þessa umræðu. Ég geri kröfu til þess, hæstv. forseti, að þessir hæstv. ráðherrar komi í salinn. Verður orðið við því?

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til að kanna hvar ráðherrar eru í húsinu og óska eftir því að þeir komi til fundar.)

Get ég farið fram á að fresta ræðu minni meðan þeirra er beðið?

(Forseti (StB): Ég sé að forsætisráðherra er genginn í salinn þannig að það ætti ekki að þurfa að vera frestun á ræðu.)

Hæstv. forsætisráðherra er mættur. Ég tel það, hæstv. forseti, virðingu við þingið, virðingu við þjóðina því það sem verið er að gera hér í kvöld og allir hér eru sammála um að er mikilvægt orkar líka tvímælis. Þess vegna er það krafa mín að þeir forustumenn sem leiða ríkisstjórnina við þessar aðstæður séu við þessar umræður og þingmönnum hefur verið sýnd óvirðing eftir því sem líður á umræðuna af hæstv. ráðherrum með því að vera ekki í salnum. Ég geri skýlausa kröfu um að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra komi í salinn. Verður orðið við því, hæstv. forseti?

(Forseti (StB): Forseti hefur gert grein fyrir því að það hafa verið gerðar ráðstafanir nú þegar ...)

Eru þessir hæstv. ráðherrar í húsi? (Gripið fram í.) Kemur hæstv. viðskiptaráðherra.

Hæstv. forseti. Þá get ég hafið ræðu mína. Ég vil í upphafi segja þetta: Við framsóknarmenn erum hér að taka aðra afstöðu en félagar okkar í hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Það eru sérstakar og óvenjulegar aðstæður. Ég virði skoðanir þeirra. Þeir rökfæra afstöðu sína vel. En við höfum farið yfir þetta mál á allan hátt og komist að þeirri niðurstöðu að nú við þessar aðstæður þurfum við að eignast einn þjóðarvilja og ganga eins og ein þjóð með sterka forustu til mikilla verka sem verða mjög erfið bæði fyrir hæstv. ríkisstjórn og marga í samfélaginu. Þess vegna höfum við komist að þeirri niðurstöðu að við teljum að við getum ekki setið hjá heldur munum styðja málið sem heildarlög þó við vitum að margt orki tvímælis. Þjóðþingin hafa mörg hver verið að takast á við svipuð verkefni og vera kann að ekki sé gott að rökstyðja að stjórnarandstöðumaður sé bara stjórnarandstöðumaður þegar mikið liggur við. Ég fagna því að stjórnarliðarnir hafa þó ekki bilað við þessar aðstæður. Það hefði getað gerst. En þeir hafa þó lafað saman þótt auðvitað sé mikil blóðtaka hjá Samfylkingunni að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki til að stýra sínu liði. Óska ég henni alls hins besta og að hún megi ná góðri heilsu á nýjan leik. Já, þetta orkar allt saman tvímælis.

Við hér og mínir menn höfum farið yfir það hver afstaða okkar er og hver rök okkar séu. Það er breyttur hagur Íslendinga á morgun. Það verður breyttur hagur Íslendinga á næstu mánuðum og í einhver ár. Tækifærin verða ekki þau sömu. Það verður töluvert langur tími sem tekur okkur að vekja upp traust umheimsins til okkar við þessar aðstæður. Það er engin spurning og það gera allir sér grein fyrir því. Það er mikið verkefni og við eigum öll að vera á sama báti að vinna það traust á nýjan leik og ekki bara stjórnmálamennirnir. Atvinnulífið, aðilar vinnumarkaðarins, fjármálamennirnir, bankamennirnir, allt þjóðfélagið verður að leggjast á árar í þeim báti og róa til framtíðarinnar. Það er náttúrlega einnig ljóst — mér þætti vænt um, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ræða mín fengi að vera flutt í friði. (Gripið fram í.) Þetta eru mjög alvarlegir tímar.

Ég vil líka segja við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson að við skulum ekkert grobba okkur af því að við séum fimmta ríkasta þjóð heimsins á morgun. Við verðum í allt öðru sæti. En við skulum jafnframt halda því fram að við stígum á stokk og strengjum þess heit að við ætlum á nýjan leik að ná því sæti með skjótum hætti. Við höfum full rök til þess að ganga þá leið. Það fór ég yfir í ræðu minni í dag að við eigum auðlindir, við eigum sjávarútveg og landbúnað, við eigum iðnað og ferðaþjónustu, við eigum hugvit og duglegt fólk þannig að það stendur allt með okkur þegar þessum verkefnum er lokið hér. En þau stóru verkefni sem ríkisstjórnin verður að fara í á morgun eru svo stór að þau snúa að því að bjarga peningalegum eignum sparenda á Íslandi í áratugi, fólks sem hefur verið að leggja fyrir í góðri trú og vonandi tekst það og ég trúi því. Það er hið erfiða verkefni að bjarga fjármunum fólks og fyrirtækja og því hefur ríkisstjórnin heitið. Hana vil ég styðja til þeirra verka þó ég geri mér grein fyrir því að í björgunarbátnum, sem ég kallaði svo, sem við erum nú að hlaða tækjum og tólum og vopnum til að takast á við öll þessi vandræði sem hafa skollið yfir íslenska þjóð, skiptir framkvæmdin miklu máli. Þar verður maður auðvitað að treysta hæstv. ríkisstjórn til að setja það í gang sem við framsóknarmenn höfum haldið fram mánuðum saman. Við fórum að tala um þjóðarsátt fyrir ári og að aðilar vinnumarkaðarins, fjármálafyrirtækin, Bændasamtökin, sjávarútvegurinn og stjórnarandstaðan kæmu að slíku borði. Ég fer fram á samráð, hæstv. forsætisráðherra, sem hefur farið fram í dag þar sem við vorum beðnir um að slíðra sverðin og höfum gert það til að vera ekki að takast á við fortíðina því að nú er það framtíðin ein sem skiptir máli. Þess vegna styðjum við það.

Ég vil við þetta tækifæri segja: Hér er í rauninni ekki verið að tala um neina þjóðnýtingu. Hér er bara björgunarleiðangur til að skilja á milli. Við ætlum, eins og allar hinar þjóðirnar í Evrópu og Ameríku, að verja íslenska hagsmuni við þessar aðstæður, verja eignir og innstæður Íslendinga eins og við getum við þessar aðstæður. Það munu allir hinir gera gagnvart sjálfum sér og við erum ekkert á öðrum bát. Þetta er skylduverkefnið sem við framsóknarmenn styðjum við þessar aðstæður.

Ég ætla hins vegar við lok þessarar umræðu, af því að þetta snýst um meira en sparifé, að segja að vandræðin snúast líka um skuldir, gengisskráninguna, stýrivextina. Ég ætla því að leyfa mér að velta því upp að gengisvísitalan var að slá upp í 230 eða 240 undir kvöldið. Það eru venjulegir Íslendingar í góðri trú sem á síðustu missirum og árum tóku erlend lán þess vegna á húsin sín, þess vegna á bílana sína og hafa séð allar þessar skuldir verða óviðráðanlegar. Staða gengisins ræður því.

Það er mikið af erlendu vinnuafli enn þá á Íslandi sem hefur séð kaup sitt falla með þessum hætti og við framsóknarmenn höfum talað fyrir því í allt sumar, í fyrravetur, að stýrivextirnir, sem fóru að slá upp í 15,5% og eru þar enn voru fyrir tveimur árum í 8%, þ.e. að það er mjög mikilvægt að taka á stýrivaxtaokrinu. Vextirnir eru verðbólguhvetjandi. Það verður að keyra vextina niður til að bjarga fólkinu. Það verður að staðsetja gengið. Ég tel að við verðum að taka upp opinbera gengisstefnu. Við verðum að leggja lögmálin til hliðar á mörgum sviðum. Þarna er um að ræða stór verkefni sem eru ekkert síður mikilvæg til bjargar fólki en það sem við erum að gera til að fólk eigi sínar eignir í bönkunum áfram. Ég vil þess vegna heyra hver viðhorf hæstv. forsætisráðherra eru við þessar aðstæður. Telur hann að taka verði upp opinbera gengisskráningu á nýjan leik? Telur hann að innan skamms geti stýrivextirnir lækkað og það verði með handafli, hugviti, íslenskum aðstæðum gengið á hólm við þessi tvö miklu atriði sem einnig raska hag heimilanna, fyrirtækjanna, ekkert síður en mörg önnur atriði? Ég vil fá svar við því, hæstv. forsætisráðherra.

Ég hef farið hlýjum orðum um hæstv. forsætisráðherra við þessar aðstæður og talið hann hafa flutt ágætisávarp í dag og veit að hann gerir sér nú grein fyrir þeim mikla vanda, yfirgengilega stóra vanda sem hann verður að reyna að stýra okkur fram hjá í heila höfn og þarf að hafa alla á bak við sig.

Ég vil svo til gamans — æ, hæstv. iðnaðarráðherra sefur enn. Hann sefur að degi. En ég sá að hann munar ekki um það þegar menn eru beðnir um að slíðra sverð að senda frá sér köpuryrði og ómerkileg orð en það gerði hann í Morgunblaðinu í dag í minn garð og framsóknarmanna. Auðvitað eru svoleiðis asnaspörk ekki svara verð. Honum hefur kannski sárnað að við höfum rakið það aftur og aftur í ræðum okkar og tillögum að hér hafi þurft að taka á. Ég veit að það fór í taugarnar á honum að í ræðu minni á fimmtudaginn við stefnuræðu forsætisráðherra sagði ég á þessa leið, með leyfi forseta:

„Fyrir ári síðan gerðu allar þjóðir heimsins sér grein fyrir því að mikill vandi var í aðsigi, þá var fjármálakreppa að búa um sig. Gjafvextir heimsins voru að breytast í okurvexti og fjármálaþurrð. Bandaríkjamenn sögðu þá“ — fyrir ári síðan — „að ógnin væri svo stór að nokkrar milljónir manna gætu misst hús sín og eignir. Hér vöruðu margir við því sama, þar á meðal helgirit sjálfstæðismanna, Morgunblaðið. Við framsóknarmenn töldum vandann risavaxinn. Ég ræddi“ — þá þegar — „þjóðstjórn og þjóðarsáttarborð þar sem allir lykilmenn þjóðarinnar ættu sér samstarf.“

Sem sé, Framsóknarflokkurinn hefur tvisvar lagt fram opinberar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum, í mars og júlí. Hann hefur hvað eftir annað sagt að vandinn sem væri á fullri ferð og mundi skella á Íslandsströndum kæmi hingað og það væri nær að bregðast við honum í tíma en að bíða eftir að óveðrið væri skollið á okkur. Óveðrið er skollið á okkur og við eigum engan annan kost en að ganga til þeirra verka sem hæstv. forsætisráðherra hefur boðað. Við vitum það líka að menn herðast í óveðri. Ófarir efla æðrulausan. Þolgóður sigrar hverja þraut. Við harðræði eflast hetjur. Ég trúi því að dugnaðarmenn Íslands margir hverjir sem eiga líka samúð mína og eru að fara illa muni rísa á nýjan leik og sjá hamingjudag og afla Íslandi auðs og fara með meiri gætni. Og ég trúi því að þær aðgerðir sem hér eru boðaðar, þó að orki tvímælis, geti verið björgunaraðgerð til þess að ganga til móts við það að verja hag heimilanna, fjölskyldnanna og við framsóknarmenn skorumst ekki úr leik við þær aðstæður. Við munum gagnrýna ríkisstjórnina eftir þörfum. Við munum leggja henni til góð ráð. En fyrst og fremst leggjum við áherslu á það hér í kvöld, eins og við höfum gert, að Ísland eigi við slíkar aðstæður einn þjóðarvilja.

Ég óska hæstv. ríkisstjórn og ráðherrum velfarnaðar í þeirra erfiðu verkum, erfiðustu verkefnum sem ríkisstjórn hefur tekist á við á lýðveldistímanum. En um leið minni ég á að það hefur stundum verið svo að þegar veðrin eru vond og erfiðleikarnir miklir þá eru Íslendingar fljótir að sigrast á þeim. Þeir eru glannalegri í sólskini og þegar allt virðist leika í lyndi.

Gangi hæstv. ríkisstjórn vel í þessum verkum fyrir þjóð sína.