136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[23:03]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem um þetta mál hefur náðst og þakka fyrir málefnalegar ræður hér um þetta efni, bæði við 1. og sömuleiðis 2. umr. Ég tel að þó að ekki muni allir þingmenn treysta sér til að greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt við 2. umr. sé tekin ábyrg afstaða með því að greiða fyrir því að málið nái fram að ganga. Ég vil sérstaklega þakka Framsóknarflokknum og formanni hans fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt þessu máli.

Hv. þm. Guðni Ágústsson bar fram nokkrar spurningar sem eru kannski þess eðlis að það væri heppilegra að svara þeim, a.m.k. einhverjum þeirra, við annað tækifæri en þær eru rökræðunnar og umræðunnar virði. Ég hygg að áhyggjur hans af háum vöxtum eigi sér samhljóm með mjög mörgum og tek eindregið undir það sem hann sagði við bæði 1. og 2. umr. um að við eigum að nýta auðlindirnar okkar og það hef ég margsagt bæði hér í Alþingi og annars staðar. Oft var þörf en nú er nauðsyn við þessar aðstæður.

Varðandi opinbera gengisskráningu hef ég ekki þá sannfæringu að það borgi sig að fara til baka í það kerfi en við þurfum að skoða öll þessi mál. Ég er reyndar fullviss um að gengi krónunnar er á kolvitlausum stað miðað við það sem verið hefur undanfarna daga. Það á heima á allt öðrum slóðum og ég hef þá trú að það muni leiðréttast þegar um hægist og öldur lægir þegar þessi aðgerð sem hér er til meðferðar á Alþingi verður um garð gengin, þ.e. þegar þessi lög hafa tekið gildi og til framkvæmda hafa komið einhver ákvæði í þeim. Um það hvenær það gæti gerst er auðvitað ekki hægt að fullyrða neitt á þessu stigi.