136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:20]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Allt hefur farið á versta veg, bæði hér og um víða veröld. Segja má að heimsstyrjöld geisi um viðskipti og fjármagn, þannig að þetta eru erfiðir tímar sem við lifum á. Auðvitað sá enginn þessa þróun fyrir, það sá enginn að þessir atburðir gætu átt sér stað. Hitt er ljóst að margir fluttu varnaðarorð um heimskreppuna í fjármálum þegar hún var að hefjast í Bandaríkjunum fyrir rúmu ári og hafa viðhaldið þeim varnaðarorðum. Á þau hefur því miður ekki verið nóg hlustað hér og aðgerðaleysi og lítill undirbúningur segir sína sögu.

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi segja: Ábyrgðina, uppgjörið og sannleikann um ástæður alls þessa verður að greina. Þar verða að koma að virtir endurskoðendur, virtir lögmenn, allir flokkar á Alþingi og þess vegna erlendir aðilar til að vinna að slíku með okkur.

Við framsóknarmenn stóðum að setningu neyðarlaganna hér á Alþingi. Við sáum í hendi okkar, eins og ástandið var, að hér var þjóðarvoði og að skjótt yrði að bregðast við. Við treystum okkur ekki til annars en að greiða neyðarlögunum atkvæði okkar. Við töldum þau björgunarbát til þess að fara í það stóra verkefni að bjarga hagsmunum almennings, fjármagni fólks og fyrirtækja, aðskilja íslenska og erlenda hagsmuni til þess að Ísland gæti risið á ný til sóknar ekki hlaðið skuldum og þeim miklu erfiðleikum sem við blöstu. Ég vona sannarlega að sú vegferð gangi.

Ég verð að gagnrýna ríkisstjórnina og forsætisráðherrann sérstaklega fyrir það að hafa ekki þegar snúist af fullri hörku og ákært þegar breska forsætisráðherrann og bresku ríkisstjórnina fyrir fólskulega og hatramma árás á íslensku bankana í Bretlandi, á íslenska þjóð. Þeir beittu hryðjuverkalögum þegar þeir réðust inn í Landsbankann þar vegna Icesave-innlánsreikninganna. Þeir réðust jafnframt inn í Kaupþingsbankann þar með sama hætti sem var breskur banki á EES-svæðinu í góðri stöðu og fullum rétti. Hryðjuverkalög — fáheyrð aðferð gegn lítilli vinaþjóð. Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti. Hinn siðmenntaði heimur hlýtur að fordæma slík vinnubrögð.

Aðferð Landsbankans, að opna og reka innlánsstarfsemi í Bretlandi og Hollandi, er ámælisverð, með ríkisábyrgð Íslendinga á bak við sig. Íslenskir, hollenskir og breskir eftirlitsaðilar þurfa að svara því af hverju ekki var gripið í taumana í ljósi áhættunnar sem okkur var sköpuð. Ég varð hins vegar aldrei var við að íslenskir ráðamenn segðu að þeir ætluðu að hundsa og hafa að engu þessa ábyrgð. Ég trúi því ekki að fjármálaráðherra hafi sagt breskum kollega sínum að það væri ætlunarverk okkar.

Hitt þarf svo að vera á hreinu að í þessu efni sem öðru förum við ekki fram úr skyldum íslenska ríkisins. Hinu hlýtur breski forsætisráðherrann, Gordon Brown, að hafa gert sér grein fyrir, að hryðjuverkalög og vopnuð lögregla mundi einnig ríða Kaupþingsbankanum breska og móðurfélaginu íslenska að fullu. Það var framið vopnað rán. Banka var rænt og móðurfélagið féll samstundis hér heima. Íslenska þjóðin var samstundis rúin mannorði sínu og heiðarleika í samfélagi þjóðanna. Lítil drengskaparþjóð sem er þekkt fyrir það eitt að leggja gott til málanna. Þvílík meðferð. Dýr mundi Hafliði allur, var sagt forðum. Þessi fólska gerði það að verkum að íslenska ríkisstjórnin fékk alla bankana þrjá í fangið með þeim ofvöxnu fjárfestingum sem þeim tilheyrðu. Risavaxið verkefni. Allt benti til þess að Kaupþingsbankinn mundi standa af sér bankakreppuna, það sögðu Svíar, það sagði Seðlabankinn hér.

Við framsóknarmenn teljum að Bretana eigi að kæra strax, kæra þá sem samstarfsþjóð á hinu Evrópska efnahagssvæði, kæra þá fyrir ólögmæta og einstaka aðför að lítilli vinaþjóð og fyrir að úthrópa Ísland gjaldþrota. Það gerði forsætisráðherra þeirra. Slík yfirlýsing hafði lamandi áhrif á framsækin íslensk fyrirtæki. Út á þessa yfirlýsingu Browns er verið að stöðva viðskipti Íslendinga um víða veröld fram á þennan dag. —Við Íslendingar töldum okkur starfa samkvæmt löggjöf á forsendum samninga og siðareglna á hinu Evrópska efnahagssvæði. — Við eigum að kæra bresku ríkisstjórnina til Brussel, kæra breska heimsveldið til hæstu skaðabóta. Breskar lögmannsstofur hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé réttur Íslands. Ég hef sannfrétt að til Íslands séu þegar komnir breskir lögmenn vegna Kaupþingsmálsins. Fróðlegt væri fyrir þingnefndir Alþingis, á sviði laga og réttar og viðskipta, að fara yfir stöðu þessa máls með bresku lögmönnunum sem hingað eru komnir. Ég tel enn fremur að við eigum að kæra breska forsætisráðherrann og ríkisstjórn hans sem brotlega þjóð til alþjóðasamfélagsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, framferði þeirra er mannréttindabrot af verstu gráðu.

Breska þjóðin fordæmir örugglega ráðamenn sína. Breska þjóðin veit að hér á hún vini í varpa sem í heimsstyrjöldinni opnuðu land sitt. Landhelgisstríðin voru að vísu hörð en þeim lauk með því að þjóðarleiðtogar beggja landanna hjuggu á þann gordíonshnút. Við urðum að vísu að grípa til örþrifaráða. Geir Hallgrímsson og Ólafur Jóhannesson beittu þeirri nauðvörn að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Þarf þess nú, hæstv. forseti? Við Íslendingar vinnum ekki heiminn á okkar band nema bæði með mýkt og hörku. Mannorðið er farið. Við verðum að verjast. Við verðum að sækja okkar rétt og sýna bresku ríkisstjórninni að drenglynd og heiðarleg þjóð ver mannorð sitt með kjafti og klóm. Við framsóknarmenn óttumst að ómarkviss og taugaveikluð vinnubrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda kunni að valda því að íslenska ríkið verði að taka á sig óbærilegar byrðar horft til framtíðar.

Hæstv. forseti. Ég trúi því að á rústum þessarar fjármálakreppu rísi hið nýja Ísland, framsækið, varkárt og heiðarlegt. Fláræðið og frjálshyggjan hafa fengið löðrung. Græðgin verður að víkja fyrir þeim lögmálum viskunnar sem gamla fólkið kenndi okkur í frumbernsku. Eitt þeirra var: Allt kann sá sem hófið kann — að best væri að þræða hinn gullna meðalveg milli öfganna.

Er hætta á því að í hinu fallna bankakerfi séu að störfum menn sem nú standi uppi við pappírstætarana og eyði upplýsingum? Ég spyr. Þjóðin sem nú tekur á sig ómældar fórnir af völdum fárra manna gerir kröfur um að öll kurl komi til grafar. Það þarf eftirlit Alþingis á bak við skilanefndirnar. Það þarf þess vegna erlenda löggilta endurskoðendur til að skapa traust. Jafnræði þarf að gilda milli vinnubragða skilanefndanna. Einstaklingar og fyrirtæki þurfa að njóta jafnræðis. Mikilvægt er að tryggja að eignir bankanna, sem nú eru eignir ríkisins, fari ekki fyrir lítið. Þessum eignum verða skilanefndir bankanna að gera sem mest verðmæti úr til þess að þjóðarskuldir verði sem allra minnstar. Annars rís Ísland ekki til nýs hagvaxtar. Þá flytur ungt fólk frá okkur. Þá hverfur líka margt duglegt fólk á braut. Það er flókin leið að endurreisa Kaupþing með lífeyrissjóðunum. Þar ber að vanda sig, ekki síst að samstarfsaðilinn sé hreinn ef til þess kemur. Ég tel mikilvægt að hið fjölþætta og almenna starfsfólk Kaupþings verði með í ráðum. Þessi skoðun má ekki tefja endurreisn Kaupþings í marga daga því að það þarf að rísa til viðskipta.

Það vaka ýmsir hrægammar, íslenskir sem erlendir, yfir því að ná eignunum af íslenskri þjóð. Það var óheppilegt að viðskiptaráðherra skyldi fram hjá skilanefndunum eiga fund með íslenskum auðmanni og breskum auðmanni sem var hingað kominn í þeim tilgangi að klófesta á engu verði eignir sem eiga að ganga upp í skaðann. Slíkir fundir ráðherra skaða íslenskan trúverðugleika og skapa áhættu.

Það var enn fremur stór frétt, sem þarf að skýra við þessa umræðu, í sjónvarpinu í gærkvöldi. Sagt var að Landsbankinn hefði beðið breska hagfræðinga að vinna skýrslu þar sem í ljós hefði komið að íslenska bankakerfið stæðist ekki til lengdar. Þessari skýrslu á að hafa verið stungið ofan í skúffu af ráðherra eða ráðherrum. Ég spyr: Sáu og lásu forustumenn ríkisstjórnarinnar þessa skýrslu?

Ég óttast að ríkisstjórnin sé ósamstiga. Þar tala bæði ráðherrar og þingmenn því miður út og suður. Hvers vegna kýs formaður Samfylkingarinnar að hræra í blóði Sjálfstæðisflokksins við þessar aðstæður? Evran og Evrópusambandið eru ekki verkefni dagsins. Þær umræður voru lýðræðislegar fyrir einum mánuði, nú þjóna þær ekki tilgangi. Við erum stödd í verstu krísu lýðveldistímans. Leiðin að myntsamstarfi Evrópu verður ekki á dagskrá í bráð. Við skulum nú sitja einir að auðlindum Íslands, Íslendingar, bæði til lands og sjávar. Þar munum við endurreisa efnahag okkar. Að fórna þremur seðlabankastjórum er fánýt umræða. Ég tel meira að segja að ríkisstjórnin, sem ég hef litla trú á, verði að sitja og eigi að róa á bæði borð. Það er hægt að kjósa og gera pólitíkina upp síðar.

Annar flokkurinn sér bara Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem lausn. Liggja skilyrði hans fyrir ef eftir láni yrði leitað? Hver eru skilyrðin? Fyrr er ekki hægt að ræða eða fortaka fyrir hjálp hans. Ég þekki það hins vegar að úrræði sjóðsins eru harðsoðin. Stýrivaxtalækkun er, að mér er sagt, talin vont úrræði á þeim bæ. Þeir vilja jafnvel hækka þá. Íbúðalánasjóður fólksins sem við framsóknarmenn höfum byggt upp og varið verður að lifa. Stýrivaxtalækkunin er mikilvægasta og brýnasta efnahagsaðgerðin á síðustu mánuðum. Útlánsvextir í 25% eru drápsklyfjar fólks og fyrirtækja. Ég fagna sérstaklega stýrivaxtalækkun Seðlabankans í morgun. Betur má ef duga skal.

Við framsóknarmenn höfum margbent á að sú hagfræði sem allar ríkisstjórnir og seðlabankar beita sér fyrir síðustu mánuði er að keyra niður stýrivexti til bjargar fólki og fyrirtækjum, það er leiðin. Við þurfum enn fremur við þessar aðstæður að sækja auð í auðlindir okkar. Þorskveiðikvóta verður að auka strax. Nú þakka allir fyrir að eiga bændur og landbúnað, að matvælaöryggið sé tryggt. Hálft ár er frá því að ráðherrar í ríkisstjórninni vildu fórna svína-, eggja- og kjúklingaframleiðslunni. Ég skora á landbúnaðarráðherra að flýta sér ekki að lögfesta matvælalöggjöf Evrópu við þessar aðstæður.

Ísland á í gegnum ferðaþjónustu að geta risið til að skapa hér miklar tekjur. Það hefur gengið vel á síðustu árum. Við verðum enn fremur að losa bæði Helguvík og Húsavík úr fari hindrana. Báðar þessar framkvæmdir eru í undirbúningi og verða nú að fá framgang. Samfylkingin getur ekki dauðrotað þessi verkefni.

Hvað með íslenska ákvæðið í Kyoto? Verður því haldið til haga áfram? Hvar stæði þessi þjóð ef ekki hefði á síðustu árum ríkt framleiðslu- og útflutningsstefna á Íslandi á öllum sviðum? Gengi krónunnar þarf að styrkja og það verður að vera í þágu útflutnings og framleiðslunnar til að gjaldeyrir komi inn í landið.

Hæstv. forseti. Ég trúi því að Ísland muni rísa þegar moldviðrinu linnir. Við erum dugleg þjóð og fljót á lappirnar á ný. Við erum oft snarpari þegar gefur á bátinn. Mannauðurinn er dýrmætasta auðlindin. Við bítum á jaxlinn og bölvum í hljóði. Nú beitum við oddinum fast. Ísland skal rísa og líta margan hamingjudag. Ég vona þrátt fyrir allt að sterkir íslenskir og norskir kögglar í hæstv. forsætisráðherra færi honum þrek. Færi honum þrek til að skapa samstöðu í ríkisstjórn sinni og skapa samstöðu með íslenskri þjóð til þess að komast yfir heiðina í þessu illviðri. Það þarf eina þjóðarsál og samstöðu. Það er það eina sem við þurfum nú á að halda, Íslendingar.