136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

hönnun og stækkun Þorlákshafnar.

22. mál
[13:44]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar. Hv. frummælandi og framsögumaður, Árni Johnsen, hefur farið nokkrum orðum um málið. Ég er ásamt öðrum þingmönnum úr Suðurkjördæmi meðflutningsmaður tillögunnar sem ég er í raun að sjá fullprentaða núna.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt þegar við ræðum þessa tillögu að við áttum okkur á hver staða málsins er. Hún er sú að það er nýbúið að stækka höfnina í Þorlákshöfn og sú stækkun miðaðist við þær þarfir sem eru í dag fyrir vinnu og framkvæmdir í höfninni í Þorlákshöfn, þ.e. skipakomur þangað.

Það er hárrétt hjá hv. flutningsmanni Árna Johnsen að það hefur staðið nokkuð lengi mikil umræða um stóriðjuframkvæmdir í Þorlákshöfn. Hjá nefnd á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem sveitarstjórnarmenn í Ölfusi hafa tekið þátt í hafa þessir möguleikar verið ræddir beint við aðila sem eru í álframleiðslu og ýmsum öðrum þungaiðnaði en þær viðræður taka alltaf mið af því að byggð verði stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Það verður hvorki álver né þungaiðnaður sem þarf mikla hráefnisflutninga að eða frá nema byggð verði stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að huga að því máli.

Hins vegar er staðreyndin sú að þegar líkanaprófi sem gert var í líkanamiðstöð Siglingamálastofnunar í Kópavogi var lokið og farið var í að bjóða út þær hafnarframkvæmdir sem nú er lokið við í Þorlákshöfn þá fengust fjármunir fyrir tilstuðlan samgönguráðuneytisins á þeim tíma til að gera líkanapróf af stórskipahöfn og það var gert einmitt vegna þess að botnlíkanið af Þorlákshöfn var til í líkanamiðstöðinni í Kópavogi. Það kostaði því tiltölulega lítið að breyta því líkani þannig að gerð væri slík höfn. Það var keyrt í nokkra mánuði í Kópavogi. Þetta er höfn sem gert er ráð fyrir að taki um 220–230 metra löng skip sem rista um það bil 14–15 metra. Það eru þeir möguleikar sem eru í Þorlákshöfn.

Gerð var gróf kostnaðaráætlun um hvað slík höfn mundi kosta og á þeim tíma var talað um 5–6 milljarða. Það eru líklega ein fjögur ár síðan. Hluti af því var dæling á sandi innan þessarar nýju hafnar sem mig minnir að hafi verið reiknaður á milljarð. Þetta var sundurgreint og er til áætlun um það. Það sem strandar á eru verkefni fyrir svo dýra og viðamikla höfn. Hún verður ekki byggð nema verkefni séu fyrir hana sem borga þann kostnað sem af hlýst. Það er í rauninni það sem ég vil að þessi þingsályktunartillaga beinist meira að og að unnið verði þannig með hana í hv. samgöngunefnd; að menn skoði þar reiknimódel og hagkvæmni þess ef til stóriðnaðar kæmi í Þorlákshöfn sem mundi nýta þessa höfn. Það er aðalmálið. Við vitum nákvæmlega hvernig líkanið lítur út og sú hönnun sem Siglingamálastofnun gerði og hvaða möguleika sú höfn hefur til að taka við stórum skipum.

Mikil vinna hefur verið í gangi í sambandi við stóriðju og orkufrekan iðnað í Þorlákshöfn, sem því miður hefur ekki gengið sem skyldi, en ekki er mjög langt síðan greint var frá því að fyrirtæki sem heitir REC og hafði mikinn áhuga á þessari staðsetningu fyrir sólarselluframleiðslu hafi hætt við og mun setja starfsemi sína upp í Kanada. Það var mikið áfall eftir þá miklu vinnu sem búið var að leggja í varðandi orkufrekan iðnað í Þorlákshöfn.

Það eru enn miklir möguleikar, við eigum mikla orku á þessu svæði og það eru auðvitað skýrar óskir og krafa þess fólks sem býr við Þjórsár/Tungnaársvæðin, Hellisheiðina, að sú orka verði nýtt til atvinnuuppbyggingar á þessu svæði.

Mér er kunnugt um að orkufyrirtækin, bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, hafa mikinn hug á að þangað megi beina orku- og atvinnuuppbyggingu í sambandi við þeirra vinnslu. Við skulum stuðla að því að svo megi verða að þessi orka megi notast í heimabyggð til atvinnuuppbyggingar þar. En varðandi höfnina sem slíka þá liggur allt fyrir hve stórum skipum þessi höfn geti þjónað, þetta er hægt. Við þurfum að fá rekstrarmódel með tilliti til þess hvaða iðnaður kemur á svæðið. Það er það sem okkur liggur mest á að fá að vita núna.