136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga -- stýrivaxtahækkun.

[14:01]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu um stýrivextina en ég verð að játa að ræða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um sjálfstæði Seðlabankans minnti mig helst á rausið í Bjarti í Sumarhúsum svo undarlegt sem það er og á skjön við allar þær reglur sem gilda. Seðlabankinn hefur visst sjálfstæði en fylgir stefnu stjórnvalda, það er alveg ljóst. Og sé það svo að um það hafi verið samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þeim drögum að samningi sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vitnaði hér til eins og plaggs sem hann hefði lesið en sagði í hinu orðinu að væri ekki til vegna þess að það væri ekki búið að skrifa undir það — auðvitað er plaggið til þó að ekki sé búið að ganga endanlega frá því til undirskriftar — ef svo er að þar sé gert ráð fyrir þessari stýrivaxtahækkun þá er alveg ljóst að bæði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hæstv. iðnaðarráðherra, sem talaði hér í gær, eru algjörlega ómerkir orða sinna. Þeir hafa algjörlega vísað því á Seðlabankann sem sjálfstæðri ákvörðun hans. Þetta er pólitísk ákvörðun. Það er pólitísk ákvörðun um hvað er samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er ekki bara einhliða skilyrði heldur er það ákvörðun sem tekin er í stjórnmálum. Það er kallað eftir því hér að Samfylkingin átti sig á að hún er í ríkisstjórn við mjög erfiðar aðstæður og það er mikilvægt að ríkisstjórnin komi fram í samstöðu á slíkum tímum en að annar ríkisstjórnarflokkurinn standi ekki upp í Alþingi og mótmæli þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið og standi svo fyrir mótmælaaðgerðum á tröppum Ráðherrabústaðarins um helgar gegn þeirri ríkisstjórn sem hann sjálfur situr í. Við búum orðið við algjört stjórnarfar fáránleikans með því að hafa aðra eins menn við stjórnvölinn.

Hitt er miklu lengra mál en svo að ég geti lokið því á tveimur sekúndum sem ég á eftir (Forseti hringir.) af ræðutíma mínum að ræða um gildi þessarar stýrivaxtahækkunar. Ég held að það hefði verið farsælla að skoða aðrar leiðir (Forseti hringir.) en aðalatriðið hefði þó verið að það væri samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þá leið sem farin er.