136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

framkvæmdir við Gjábakkaveg.

76. mál
[14:28]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Virðulegur forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar og þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram vil ég segja að það var mikil nauðsyn á því að endurbyggja Gjábakkaveginn og leggja nýjan veg til að auka umferðaröryggi. Það er mikil umferð þarna miðað við aðstæður á veginum og óforsvaranlegt að hafa hann í óbreyttri mynd áfram.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að þessi vegarlagning er í fullu samráði og í sátt við þingmenn Suðurkjördæmis og forsvarsmenn þjóðgarðsins á Þingvöllum voru að sjálfsögðu hafðir með í ráðum við undirbúning málsins. Hins vegar hefur einn aðili, vatnalíffræðingur, lagt sig fram við að reyna að tefja og koma í veg fyrir þessa framkvæmd og ég tel að það hafi ekki verið ástæða til að hlaupa á eftir þeim sjónarmiðum sem þar voru sett fram. Við hljótum að fagna því að vegakerfið við þjóðgarðinn sé endurbætt.