136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[11:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Alþjóðleg fjármálakreppa skekur nú þjóðir heims sem kosta kapps um að forða því sem forðað verður undan kreppunni. Staðreyndin sem við blasir er sú að fjármálakreppan ógnar flestum þjóðum og staðreyndin er líka sú að það er ekki hægt að takmarka tjónið af henni nema með alþjóðlegri samvinnu ríkja. Fram undan er algjört endurmat alþjóðlegs fjármagnsmarkaðar og fram undan er algjört endurmat íslensks fjármálakerfis. Við munum þar þurfa að draga þunga lærdóma.

Hið efnahagslega gjörningaveður sem við Íslendingar förum nú í gegnum skellur sannarlega á okkur með meiri þunga en á aðrar þjóðir. Ástæðan er m.a. smæð þjóðarinnar, stærð fjármálakerfisins, glannaskapur margra stjórnenda og eigenda banka og fyrirtækja og síðan takmarkaður varnarviðbúnaður. Má segja að efnahagskreppan sé í ætt við hamfarir sem hafi áhrif á öll heimili og fyrirtæki í landinu. (Gripið fram í.) Íslenskt fjármálakerfi hefur orðið fyrir miklu áfalli og afleiðingarnar eru fjárhagslegt tjón fyrir almenning, atvinnulíf og þjóðarbúið allt sem nemur hundruðum milljarða króna.

Verkefni stjórnvalda þessa dagana má líkja við björgunaraðgerðir á slysstað. Allra leiða er nú leitað til að tryggja greiðsluflæði til og frá landinu, útvega gjaldeyri svo að hægt sé að greiða fyrir nauðsynjavörur og skjóta styrkari stoðum undir gjaldmiðilinn. Með þessu er stefnt að því að draga úr frekari búsifjum fyrir almenning og atvinnulíf í formi síhækkandi verðbólgu til framtíðar. Það er í þessum tilgangi sem við höfum lagt á það höfuðáherslu undanfarnar vikur að ná samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að ná því jafnvægi í gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar sem er forsenda þess að við getum hafið endurreisnarstarfið hér í samfélaginu.

Ekki eru allir á eitt sáttir um nauðsyn þess að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur raunar verið þekktur fyrir að setja ríkjum heims, ekki síst þróunarríkjum, harkaleg skilyrði um einkavæðingu og markaðsbúskap sem í mörgum tilvikum hefur ekki byggst á raunsæju mati á stöðu og getu viðkomandi ríkja. Ég lít hins vegar svo á að eins og málum er nú komið á Íslandi sé samstarf við sjóðinn eina leið okkar Íslendinga út úr gjaldeyris- og bankakreppunni. Í því sambandi skulum við líka hafa það hugfast að Íslendingar voru meðal þeirra 29 þjóða sem stofnuðu sjóðinn árið 1945 og lánið nú verður fimmta stóra lánið sem Íslendingar taka hjá sjóðnum á þessum ríflega 60 árum. Við höfum að sönnu aldrei áður horfst í augu við gjaldeyrishrun eins og nú er en söguleg reynsla Íslands af lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er farsæl.

Ég sagði að þetta væri eina leiðin nú eins og málum er komið og af hverju er þetta eina leiðin? Það er vegna þess að stuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var forsenda þess að við gætum leitað eftir stuðningi annarra þjóða svo sem frændþjóða okkar á Norðurlöndunum. Þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að forsætisráðherra Noregs hafi sagt að þetta væri ekki skilyrði fyrir því að Norðmenn kæmu að þessu þá er það að vissu leyti ákveðinn orðhengilsháttur vegna þess að það hefur skýrt komið fram í samtölum sem ég hef m.a. átt við forsætisráðherra Noregs og utanríkisráðherra Noregs og raunar aðra ráðherra að þetta væri ein af forsendum þess að þessar þjóðir gætu komið að lánveitingum til Íslendinga. Hvort það er skilyrði, hvort menn vilja orða það þannig, er eins og ég segi ákveðinn orðhengilsháttur. Þetta hefur eins og ég sagði komið skýrt fram af hálfu norskra yfirvalda og þetta hefur komið skýrt fram í samtölum mínum við forsvarsmenn annarra ríkja. Það var sem sagt einfaldlega ekki í boði. Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er lykillinn að frekari stuðningi einstakra ríkja því að sjóðurinn tekur að sér að leggja faglegt mat á efnahagslega stöðu okkar, horfur í þjóðarbúskapnum og vaxtarmöguleika og á grundvelli þess mats koma aðrar þjóðir til skjalanna. Staðreyndin er einfaldlega sú að lánveitingar annarra ríkja, jafnt næstu vinaþjóða sem fjarlægari ríkja, virðast háðar því að utanaðkomandi alþjóðlegur aðili leggi mat á stöðu okkar og gefi trúverðugri áætlun um viðreisn fjármálakerfis og gjaldeyrisviðskipta nokkurs konar heilbrigðisvottorð.

Yfirlýsing framkvæmdastjóra sjóðsins strax á föstudag um stuðning sjóðsins við Ísland var mjög mikilvæg. Bein samtöl okkar við ráðherra sterkustu ríkjanna innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa staðfest mikilvægan stuðning og á næstu dögum munum við ræða við fleiri ríki. Lánsfé sem áður var ófáanlegt verður vonandi og ég segi vonandi fáanlegt og hin nauðsynlega viðspyrna fengin. Viðspyrnan verður að skila fjölskyldum og fyrirtækjum eðlilegra umhverfi og andrými til að endurskipuleggja, bregðast við og horfa til framtíðar. Það verður að fá krónuna til að virka á ný gagnvart veröldinni, gjaldeyrismarkaðurinn, hin mikilvæga vél nútímaefnahagslífs verður að snúast þó að orðið hafi að beita startköplum til að koma henni í gang og gangurinn í vélinni verði ójafn í fyrstu.

Vaxtahækkunin frá í gær var sannarlega erfið en vonandi er hún aðeins til skamms tíma. Henni er auðvitað ætlað að styðja við krónuna og sporna gegn verðbólgu. Fátt er mikilvægara fyrir fjölskyldurnar í landinu sem eru með 75% af skuldum sínum í verðtryggðum lánum og 15% í gengistryggðum lánum. En veik króna og mikil verðbólga eru að sjálfsögðu mikill skaðvaldur við slíkar aðstæður. Í þessu sambandi er rétt að halda því til haga að ég tel að samhliða þessum aðgerðum, vaxtahækkun Seðlabankans, þurfi að koma til aðrar aðgerðir, m.a. að sett verði ákveðin höft á frjálsa fjármagnsflutninga sem ekki tengjast viðskiptum með vöru eða þjónustu, sem vonandi gætu þá verið skammvinnar líka rétt eins og vaxtahækkunin.

Það hefur komið hér til tals og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert það að sérstöku umræðuefni hvort þetta hafi verið skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í þessu sambandi verða menn að hafa í huga að það prógramm sem sett er upp er sett upp af íslenskum stjórnvöldum, þetta er það prógramm sem við leggjum fyrir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og á þeirri forsendu fjallar sjóðurinn um umsókn okkar um lánveitingu. Þetta er sem sagt prógramm sem við berum ábyrgð á og þar af leiðandi hlýtur vaxtahækkunin sem í því felst að vera á okkar ábyrgð, íslenskra stjórnvalda, og við getum ekki vísað henni frá okkur á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ég vil líka segja í þessu sambandi, af því að hér hefur verið spurt hvort hægt væri að upplýsa um það sem í þessu prógrammi felst, að það kom skýrt fram hjá þeirri sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hér var að ekki væri hægt að upplýsa um þetta fyrr en það hefði verið lagt fyrir stjórnarmenn í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hvað felst í því sem upplýsingafulltrúi sjóðsins segir veit ég ekki um en þetta voru þau skýru skilaboð sem við fengum frá sendinefndinni sem hingað kom frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þess vegna upplýstum við ekki um þetta vegna þess að við vildum ekki spilla möguleikum okkar hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Verkefnið sem við stöndum andspænis á næstunni er brýnt og margslungið en í stuttu máli má kannski skipta því í fernt. Í fyrsta lagi aðgerðir til að bæta hag heimilanna. Í öðru lagi aðgerðir til að styrkja stöðu fyrirtækja og forða þeim frá gjaldþroti. Í þriðja lagi aðgerðir sem lúta að því að skapa hér skilyrði fyrir heilbrigt samfélag í framtíðinni og loks aðgerðir sem lúta að því að gera upp með heiðarlegum hætti þá atburði sem leiddu til kollsteypu íslenska fjármálakerfisins.

Eitt brýnasta verkefni næstu daga er að hrinda í framkvæmd markvissum aðgerðum í þágu heimilanna í landinu. Leita þarf allra leiða til að draga úr gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja en jafnframt að rýmka ákvæði í gjaldþrotalögum til að þeir sem verða gjaldþrota komist sem allra fyrst á réttan kjöl á ný. Við þurfum að grípa til sérstakra aðgerða í húsnæðismálum, bjóða upp á greiðsluaðlögun húsnæðislána sem gefa því fólki sem á þarf að halda aukið svigrúm í formi léttari greiðslubyrði á meðan það er að ráða fram úr sínum málum. Við þurfum að leita eftir samstarfi við Íbúðalánasjóð og sveitarfélögin til að fjölga leiguíbúðum og gefa þeim sem horfa fram á að missa húsnæði sitt kost á að leigja húsnæðið með það fyrir augum að eignast það á ný þegar hagurinn vænkast.

Það er nauðsynlegt að grípa til skjótra úrræða til að draga úr atvinnuleysi, skapa ný störf og bæta framtíðarmöguleika þeirra sem missa vinnuna með úrræðum á sviði endurmenntunar og starfsþjálfunar. Þar er mikilvægt að við leitum nýrra lausna og vil ég nefna í því sambandi hugmyndir sem nú er verið að útfæra í iðnaðarráðuneytinu. Þar kemur til álita að Atvinnuleysistryggingasjóður taki upp samstarf við Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja um að skapa 100 ný störf í sprotafyrirtækjum fyrir fólk sem misst hefur vinnuna. Við þurfum að bjóða þeim sem missa vinnuna endurmenntun við hæfi sem geri þessa einstaklinga að eftirsóttum starfskröftum í framtíðinni. Þar gegna háskólarnir lykilhlutverki og er mikilvægt að boðið verði upp á ný hagnýt námskeið fyrir atvinnulausa á allra næstu mánuðum.

Jafnframt því að grípa til aðgerða sem bæta hag heimilanna þurfum við að beina sjónum okkar að umhverfi fyrirtækjanna í landinu og þar er forgangsmál að tryggja gjaldeyrisviðskipti til og frá landinu. En fleira þarf að koma til. Mörg góð en skuldsett fyrirtæki munu ramba á barmi gjaldþrots ef ekkert verður að gert. Þessi fyrirtæki sem mörg hver eru með skuldir í erlendri mynt hafa orðið fyrir þungum búsifjum að undanförnu vegna gengisfalls krónunnar og hruns verðbréfamarkaða. Ríkisvaldið þarf að skoða hvort hægt sé að beita niðurfærslu skulda hjá slíkum fyrirtækjum í því skyni að koma í veg fyrir frekari uppsagnir, atvinnuleysi og tekjumissi hjá heimilunum í landinu. Í því skyni verður hins vegar að gæta þess að fylgt verði almennum og gegnsæjum reglum sem byggi á jafnræði og sanngirni. Þar getum við ýmislegt lært af frændum okkar Svíum og Finnum sem fóru í gegnum fjármálakreppur fyrir nokkrum árum. Við þurfum að taka atvinnustefnuna til endurmats í ljósi breyttra aðstæðna og þar er mikilvægt að við Íslendingar nýtum sérstöðu okkar á sviði endurnýjanlegra orkuauðlinda til að skapa hér ný atvinnutækifæri sem sameini verðmætasköpun og virðingu fyrir umhverfinu.

Hér innan lands þurfum við að leita leiða til að örva fjárfestingar í atvinnulífinu og þar fagna ég sérstaklega ályktun Alþýðusambands Íslands sem kallar eftir því að skapaðar verði forsendur fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins með breytingum á ákvæðum um fjárfestingar lífeyrissjóðanna í lögum og samþykktum sjóðanna.

Við verðum að læra af reynslunni og það verður að vera okkar leiðarljós við uppbyggingu nýs fjármálakerfis á Íslandi. Nýtt bankakerfi þarf að byggja á gegnsæi, fagmennsku og gildum eins og góðu viðskiptasiðferði í samskiptum við einstaklinga og fyrirtæki. Óhófleg launakjör æðstu stjórnenda verða að heyra sögunni til, sömuleiðis himinháar starfslokagreiðslur og bónusgreiðslur sem byggðar eru á skammtímagróða. Við verðum að læra af reynslunni og þess vegna verðum við að viðurkenna að peningamálastefnan hefur gengið sé til húðar. Ný peningamálastefna á að byggja á stöðugum gjaldmiðli og faglegri yfirstjórn Seðlabanka Íslands sem nýtur trausts jafnt hér heima sem erlendis.

Samfylkingin hefur um árabil haft þá stefnu að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Lengi vel naut þessi skoðun stuðnings minni hluta þjóðarinnar en nú hafa aðstæður breyst með þeim hætti að mikill meiri hluti þjóðarinnar telur nú að Evrópusambandsaðild og upptaka evru þjóni hagsmunum okkar best til framtíðar. Í hvorutveggja hefði líka falist sá varnarviðbúnaður í fjármálakreppunni sem okkur skortir nú svo sárlega. Alþýðusamband Íslands ályktaði á ársfundi sínum um liðna helgi að aðild að ESB og upptaka evru væri eina færa leiðin til að tryggja hér stöðugan gjaldmiðil til framtíðar. Mikill og vaxandi stuðningur er sömuleiðis við upptöku evru og ESB-aðild í röðum atvinnurekenda. Aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið sína heimavinnu og komist að þeirri niðurstöðu að breyttar aðstæður kalli á nýjar lausnir. Sama verkefni bíður stjórnmálaflokkanna í landinu og ég minni á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna leiðsögn um að stefnan í Evrópumálum geti tekið breytingum í samræmi við endurskoðað hagsmunamat.

Virðulegur forseti. Fram undan er erfiður vetur fyrir landsmenn alla og við þurfum öll að taka á okkur auknar byrðar. Ríkissjóður þarf að bera aukna skuldabyrði vegna lána til að efla gjaldeyrisforðann og það kallar á aukinn sparnað í ríkisbúskapnum. Ljóst er að draga þarf verulega úr ríkisútgjöldum en þá er mikilvægt að við stöndum vörð um hag heimilanna í landinu og hlúum að þeim sviðum samfélagsins sem geta gert okkur kleift að snúa vörn í sókn innan fárra ára. Þar þarf sérstaklega að huga að menntakerfinu og í því sambandi er mikilvægt að ríkisvaldið taki til sérstakrar skoðunar hvernig koma megi til móts við námsmenn og ungt fólk sem hefur nýlokið námi. Þar þarf m.a. að kanna hvernig hægt sé að létta endurgreiðslubyrði námslána sem og möguleika á að greiða námslán út í samræmi við framvindu náms en ekki eftir á eins og nú er raunin.

Við þurfum öll að taka á okkur byrðar til að vinna okkur út úr kreppunni og þar erum við ráðamenn þjóðarinnar ekki undanskildir. Ríkisstjórnin verður að ganga á undan með góðu fordæmi og gera nauðsynlegar breytingar á eftirlaunakjörum þingmanna og ráðherra til að skapa meiri jöfnuð við lífeyriskjör annarra landsmanna. Þetta verkefni hefur verið til umræðu milli formanna flokkanna og til meðferðar í forsætisráðuneytinu frá því í sumar og ég legg áherslu á að við hröðum þessari vinnu sem kostur er þannig að nýtt frumvarp geti orðið að lögum fyrir jól.

Þjóðin hefur orðið fyrir áfalli. Það er mikil óvissa um framtíðina og almenningur kallar eftir heiðarlegu uppgjöri á þeirri atburðarás sem leiddi til bankahrunsins í upphafi þessa mánaðar. Því kalli verðum við að svara og ég tel mikilvægt að á allra næstu dögum verði tekin ákvörðun um tilhögun þeirrar úttektar. Þar er frumskilyrði að til verksins verði kallaðir aðilar sem njóta fulls trausts og virðingar af störfum sínum. Ég tel að hér sé farsælast að um verði að ræða nefnd sérfræðinga sem standa utan hins pólitíska sviðs og þar verði m.a. leitað til erlendra aðila sem hafa reynslu af sambærilegum verkefnum, t.d. á Norðurlöndunum. Þjóðin á kröfu um að hreint verði gengið til þessa verks með fagmennsku og gegnsæi að leiðarljósi og þar verði ekkert dregið undan.

Herra forseti. Við Íslendingar höfum orðið fyrir þungri ágjöf á liðnum vikum jafnt í efnahagslegu tilliti en ekki síður hvað varðar orðstír okkar á alþjóðavettvangi. Það mun taka okkur einhvern tíma að vinna upp það sem tapast hefur. Við þessar aðstæður eigum við þann kost helstan að nýta styrk okkar sem atorkuþjóðar í einstöku landi, þjóðar sem er vön að takast á við válynd veður og óblíða náttúru. Við höfum unnið mörg þrekvirki á undanförnum áratugum og öldum og við munum halda því áfram. Með íslenskan galdur í farteskinu og í náinni samvinnu við alþjóðasamfélagið munum við komast í gegnum kreppuna. Gleymum því ekki að í öllum aðstæðum felast tækifæri og þó að við horfum fram á gerbreytt umhverfi eigum við sögulegt tækifæri til að skapa hér forsendur fyrir nýju og heilbrigðara samfélagi sem byggir á jöfnuði, samhjálp og réttlæti. Það er verkefni sem getur dregið fram það besta í okkur öllum og við skulum ganga til þess verks full vonar og bjartsýni.