136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[13:52]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er reyndar algjörlega ósammála síðustu orðum þingmannsins að við hefðum þurft að gera þetta allt saman sjálf. Við hefðum ekki þurft að hækka stýrivexti að mínu viti upp í 18% en það er tæknileg umræða sem þarf miklu lengri tíma til að ræða en hér er gefinn. En ég vil benda á í þessu sambandi að þegar samfylkingarþingmenn og forustumenn Samfylkingarinnar hófu þessa umræðu var algjörlega ljóst — jafndagljóst og hv. þingmaður talaði um að hefði verið ljóst að við þyrftum að leita aðstoðar — að það var ekki eining um þessa stefnu innan ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er það mjög sérkennileg stefna í ríkisstjórnarsamstarfi og við sem erum í stjórnarandstöðu getum kært okkur kollótt hvunndags en þegar þjóðarhagsmunir eru í húfi eins og hér getum við ekki setið þegjandi undir því að samstarf ríkisstjórnar sé með þessum hætti og að ráðherrar fjármála þurfi að sitja við samningaborð fyrir vestan haf og sitja á meðan undir glósum frá samstarfsflokki sínum hér heima. Það er það sem ég kalla óþjóðholla hegðun (Forseti hringir.) og skemmdi stórlega fyrir, hef ég heimildir fyrir, (Forseti hringir.) hagsmunum Íslendinga í því mikilvæga máli.