136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:44]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði: Það blasir við að einn maður getur eignast alla einkarekna fjölmiðla á Íslandi.

Já, það er rétt, en valdið er ráðherra og ríkisstjórnar að stöðva þetta mál strax. Þetta er allt gert í nafni ríkisstjórnarinnar ef það er gert í gegnum bankaráð sem er bráðabirgðabankaráð, í gegnum bankastjórn sem er bráðabirgðabankastjórn.

Ég verð að segja að mér finnst hæstv. menntamálaráðherra boða það seint að í rassinn verði gripið. Nú á að skipa fjölmiðlanefnd, það á að gera það eftir að þessi gjörningur hefur átt sér stað. Ég fer fram á að gjörningurinn verði stöðvaður og að við förum yfir markaðinn. Með þeim hætti getur Framsóknarflokkurinn, og stjórnarandstaðan að ég hygg, komið að því máli með ríkisstjórninni.

Ég vil líka minnast á samkeppnismálin. Samkeppnisráðherra hlýtur að stöðva þetta mál. Hann hefur gert sig gildandi sem samkeppnisráðherra, Björgvin Sigurðsson, og hlýtur að stöðva þetta mál strax.

Ég fagna umræðu sjálfstæðismanna í þessari umræðu. Ég vek hins vegar athygli á því að samfylkingarmenn hafa talað með öðrum hætti enda bera þeir rauða sól í barmi. Hv. þm. Róbert Marshall ræddi um forgjöf Ríkisútvarpsins eina ferðina enn. Þegar þessum gjörningi verður lokið verður RÚV með 12% tekjuhlutfall eftir eignabreytingarnar um helgina. Hin nýja sól mun hafa 75% hlutfall. Hver er staðan? Þetta er hin eilífa umræða og það er sorglegt að hlusta á hæstv. menntamálaráðherra sem við hvert tækifæri boðar að hún muni taka tekjurnar af Ríkisútvarpinu. Þetta er staðan sem blasir nú við og ég mótmæli því (Forseti hringir.) að það verði gert sem ég hef hér rætt í dag, að færa einum manni alla einkarekna fjölmiðla. (Forseti hringir.) Við förum yfir málið með þeim hætti, ríkisstjórnin getur með valdi sínu stöðvað Landsbankann í þessum gjörningi sínum.