136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn ef hv. þm. Gunnar Svavarsson vill hafa áhrif á það hvaða skoðanir menn hafa í öðrum flokkum. En varðandi þær spurningar sem hér hafa komið fram er því fljótsvarað að ég tel alls ekki — og tók það skýrt fram í blaðaviðtölum ef hv. þingmanni þóknast að lesa þau til hlítar — alla þá sem aðhyllast Evrópuskoðanir innan Framsóknarflokksins vera óróamenn. Ég vakti aftur á móti athygli á því að ákveðnum fjölmiðlum hefði verið beitt af mikilli óbilgirni gegn formanni flokksins og við það stend ég.

Varðandi þá hlið málsins, sem var upphaf þessarar umræðu, að Glitnir héldi úti áróðri fyrir Evrópusambandsaðild, þá fer það ekkert á milli mála. Það hafa fjölmiðlar líka gert. Nú skrifa leiðarahöfundar beggja stóru blaðanna mjög á eina lund um það mál og ætti sú staða sem uppi er í fjölmiðlaheiminum í þessum efnum að vera öllum lýðræðissinnum áhyggjuefni, bæði þeim sem aðhyllast aðild okkar að Evrópusambandinu og þeim sem gera það ekki.

Úr því að ég er kominn í ræðustól vil ég víkja sérstaklega að því að mér þykir það ekki mjög merkilegt erindi hjá hv. formanni fjárlaganefndar í ræðustól Alþingis að ræða þessi mál meðan vinna fjárlaganefndar liggur algerlega niðri á þessu hausti. Ég kalla eftir því að fjárlaganefnd taki til starfa og þingnefndir meiri hlutans og þingið taki til starfa um þau efnahagsmál sem uppi eru (Gripið fram í.) en það sé ekki talið eina málið að allir fari rétt með trúarjátningar í Evrópusambandsmálum. Vissulega er ágreiningur um það í öllum flokkum. (Iðnrh.: Nei, nei.)

Ég var sjálfur á fundi í hádeginu í dag með tveimur varabæjarfulltrúum Samfylkingarinnar, öðrum úr Reykjavík og hinum úr Grindavík, sem báðir eru miklir andstæðingar Evrópusambandsaðildar. Það getur vel verið að Gunnar Svavarsson vilji ekki kannast við tilvist þeirra manna í flokknum en þeir hafa margoft bent mér á að mjög skiptar skoðanir eru um þetta í hans flokki eins og í öllum öðrum flokkum, og eru það engin ný tíðindi.