136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

upplýsingagjöf um aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég hygg að við verðum öll að kannast við það að upp hafa komið í þjóðfélaginu aðstæður sem enginn okkar hefur þurft að glíma við áður, enginn þingmaður, enginn ráðherra. Allir sem hafa komið að þessu ferli hafa reynt að vinna sín verk eins vel og þeir hafa mögulega getað. Það er engum blöðum um það að fletta. Það á við um skilanefndirnar í bönkunum, það á við um hin tímabundnu bankaráð og það mun eiga við um nýju bankaráðin sem við gengum frá fyrir helgi í góðu samstarfi allra flokka. Þetta eru nokkrir af þeim aðilum sem eru á vettvangi í þessu máli en auðvitað koma margir fleiri að. Gagnvart almenningi er auðvitað mikilvægast að fólk hafi á tilfinningunni að það sé rétt og eðlilega að hlutum staðið, að það sé hvergi mismunað, að allir sitji við sama borð og allir eigi sama rétt bæði á upplýsingum og á sömu meðferð gagnvart stofnunum hins opinbera. Þannig er það, þannig viljum við hafa það og munum reyna að tryggja að það verði svo.