136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[15:51]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Þetta er eitt af þeim málum sem ég hef gríðarlega mikinn áhuga á og það er nákvæmlega ár síðan ég lagði fram fyrirspurn á hv. Alþingi til hæstv. ráðherra þar sem ég spurði hvernig hæstv. ráðherra hygðist standa að því að efla þorskeldi hér á landi. Ég spurði ekki hvort heldur hvernig af því að ég taldi það svo sjálfsagt að ráðherrann mundi beita sér fyrir því. Hann tók því allvel þá þegar.

Síðan hefur hann bætt svarið, að mínu mati, bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd nú nýlega með því að segja að hann telji að seiðaframleiðslan eigi að vera sameiginlegt verkefni ríkisvaldsins og þeirra útgerðarfyrirtækja sem hafa starfað að þorskeldi og það er gott mál og það var einmitt það svar sem ég vildi heyra. Ég vonast samt til þess, hæstv. forseti, að það verði þó ekki þannig að ef við tölum saman eftir ár þá verði staðan óbreytt. Ég geri kröfu til þess, ég tek svo mikið upp í mig, að hæstv. ráðherra fylgi þessu máli eftir því ekki veitir af að auka verðmætasköpun í landinu og gjaldeyristekjur og ég er þeirrar skoðunar að einmitt þessi atvinnugrein eigi að geta hjálpað okkur á því sviði.

Hæstv. ráðherra nefndi að það væri nefnd að störfum sem skipuð var fyrir um það bil ári síðan og mér finnst ansi mikill hægagangur á því að hún skili af sér því það er nokkuð langt síðan við fengum þær upplýsingar að hún hefði lokið störfum. Ég veit ekki hvað veldur því að niðurstaða hefur ekki verið gerð opinber enn þá. En aðalatriðið er að ég tel að þessi umræða ýti á að þessi atvinnugrein verði tekin alvarlega (Forseti hringir.) að mati ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra, þó að hæstv. ráðherra hafi að mínu mati óþarflega oft nefnt orðið „áhættusamur“ í ræðu sinni áðan.